Fréttasafn18. júl. 2019 Almennar fréttir Efnahagsmál Hugverk

Jákvæð efnahagsleg áhrif af gagnaversiðnaði

Uppbygging gagnaversiðnaðarins á Íslandi er mikilvæg til framtíðar litið enda eru gögn og vinnsla þeirra að taka sífellt meira pláss í viðskiptum á heimsvísu og spila stórt hlutverk í fjórðu iðnbyltingunni svo dæmi sé tekið. Við treystum alltaf meira á gögn, bæði atvinnulíf og einstaklingar, og þetta er framtíðin. Við teljum mikilvægt að vera þátttakandi í henni. Þetta segir Sigríður Mogensen, sviðsstjóri hugverkasviðs SI, í viðtali í Morgunútvarpi Rásar 2 í morgun en komið hefur fram að gagnaver noti um 5% af allri raforku á Íslandi sem jafngildir allri rafmagnsnotkun heimila landsins og að skortur á raforku gæti hindrað gagnaver landsins í að stækka. 

Þegar Sigríður er spurð hvort skortur á raforku sé hamlandi fyrir þessa starfsemi segir hún að vissulega muni gagnaver ekki stækka umfram það sem raforkukerfið bíður upp á. „Það eru ýmsar hindranir. Við seljum ekki meiri raforku en við framleiðum. Það sem skiptir máli í þessu er að horfa á að uppbygging raforkukerfisins á undanförnum áratugum hefur snúið mikið að stóriðjunni og nú erum við einfaldlega að dreifa áhættunni og fjölga eggjunum í körfunni, með því að selja raforku til fleiri aðila og fleiri atvinnugreina. Þannig að ég get ekki séð annað en að það sé jákvætt.“

Tækniframfarir að miklu leyti raforkuknúnar

Finnst þér þá neikvætt að ræða um það að gagnaverin valdi skorti á raforku? „Það er alveg ótrúlegur málflutningur vegna þess að gagnaverin nota um 5% af heildar-raforku á Íslandi og það getur nú ekki þýtt það að skortur sé til heimila sem nota svipað hlutfall eða um 5% af raforku. Ég held að það þurfi að taka umræðuna í miklu víðara samhengi. Hversu mikið viljum við að raforkukerfið stækki til framtíðar og á næstu árum. Það má segja að þær tækniframfarir sem eru framundan á heimsvísu sem eru gríðarlega hraðar og miklar muni að miklu leyti vera raforkuknúnar, það er að segja, það mun krefjast mikillar raforku að viðhalda gervigreind og því sem fjórða iðnbyltingin snýst um. Gögn eru sífellt að verða mikilvægari og eftirspurn eftir hýsingu og vinnslu gagna mun aukast fyrirséð gríðarlega mikið. Þá er þetta bara spurning um það, ætlar Ísland að vera þátttakandi í þessum tæknibreytingum en íslensk fyrirtæki líkt og erlend tæknifyrirtæki þurfa einnig að geyma gögn. Heilbrigðiskerfið okkar þarf að geyma gögn og gögn eru að verða gríðarlega mikilvæg vara í viðskiptum. Ég held að við verðum að taka umræðuna miklu meira út frá því heildarsamhengi hvert erum við að fara með atvinnuppbyggingu hér á landi og er ekki fjölbreytt atvinnuppbygging af hinu góða.“

Vöxtur gagnaversiðnaðar byggir ekki á Bitcoin-viðskiptavinum

Sigríður segir það merkilegt að fylgjast með þeim málflutningi að láta þetta snúast um eina rafmynt. „Bitcoin er vissulega stærsta rafmyntin í heiminum í dag en það eru 1.600 rafmyntir á skrá og sumar þeirra hafa jafnvel verið samþykktar inn í skráðar kauphallir og af fjármálaeftirliti ýmissa landa. Þannig að það er hægt að tala um þennan rafmyntaheim. Staðreyndin er sú að viðskiptaheimur íslenskra gagnavera er mun fjölbreyttari en þeir sem óska eftir gagnavinnslu í tengslum við námugröft eftir Bitcoin og vöxtur gagnaversiðnaðarins í dag byggir ekki á Bitcoin-viðskiptavinum. Þannig að hlutur þeirra í heildarstarfseminni er sífellt að minnka.“

Þarf að efla gagnatengingar 

En er það ekki einmitt þessi námugröftur sem kallar á alla þessa raforkunotkun? „Það má segja að það að grafa eftir rafmynt krefjist hlutfallslega meiri orku en önnur gagnavinnsla heilt yfir og þá á sama tíma er háð öflugum gagnatengingum. Þetta er kannski líka umræða sem við þyrftum að taka að ástæða þess meðal annars að viðskiptavinir hafa leitað til Íslands til að grafa eftir rafmyntum er meðal annars sú að hér er auðvitað orka, ég mundi ekki segja ódýr orka, vegna þess að ef við berum okkur saman við Norðurlöndin þá erum við ekki að selja orkuna ódýrari hér en Norðurlöndin eru að gera og við erum að fá arð fyrir þessa orku sem þjóð í gegnum Landsvirkjun. Landsvirkjun hefur auðvitað skilað miklum arði til samfélagsins á undanförnum árum. Þannig að umræðan er svolítið á villigötum hvað það varðar. En það sem skiptir máli líka er að til þess að byggja upp öflugan gagnaversiðnað og þá mögulega að laða til okkar enn fjölbreyttari viðskiptavinahóp til gagnaveranna þá þurfum við líka að efla gagnatengingar. Það væri óskandi að við gætum átt þá umræðu líka.“

Frekar umræða um hvert við viljum selja orkuna

Þegar Sigríður er spurð hvort Samtök iðnaðarins séu ósammála því að það sé sóun á grænni orku að setja hana í gagnaverin sem eru í þessum námugreftir segir hún já, þarna sé verið að horfa til einnar tegundar af viðskiptavinum gagnavera sem eru að grafa eftir Bitcoin. „En eins og ég sagði áðan þá er viðskiptagrunnur gagnaveranna miklu fjölbreyttari en svo. Við auðvitað stöndum betur í heiminum vegna þeirrar grænu orku sem við eigum hér á Íslandi og spurningin er bara sú hverjum viljum við selja þessa orku. Ætlum við að hengja okkur á einn viðskiptavin og þá er ég ekki að segja að Bitcoin námugröftur sé af hinu slæma. Í þessari umræðu ættum við að taka heildarumræðuna. Hvert viljum við almennt selja raforkuna okkar. Viljum við flytja hana út eða ekki. Þá erum við komin út í víðari umræðu um orkumál. Eða viljum við byggja undir verðmætasköpun á Íslandi og við teljum að gagnaversiðnaður sé nákvæmlega það.“

Áhugi á gagnaversiðnaði í Noregi, Svíþjóð og Írlandi

Sigríður segir það athyglisvert að fylgjast með umræðunni til dæmis í Noregi, Svíþjóð og Írlandi. „Þar er gagnaversiðnaðurinn að stækka hratt. Norðmenn, ríkisstjórn Noregs, gaf út skýrslu í byrjun árs 2018 þar sem fram kemur að Noregur eigi að vera gagnaversþjóð vegna þeirra jákvæðu áhrifa sem gagnaversiðnaður geti haft á samkeppnishæfni Noregs og svo framvegis. Ég er líka með undir höndum skýrslu sem írsk stjórnvöld létu vinna fyrir sig, Granth Thornton vann þessa úttekt sem staðfestir enn og aftur að gagnaversiðnaður hefur mjög jákvæð efnahagsleg áhrif og jákvæð ytri áhrif í tengslum við útflutningstekjur, verðmætasköpun, auðvitað skapar bein og afleidd störf og svo framvegis. Þannig að þetta er umræðan í nágrannaríkjum okkar og það væri ágætt að umræðan gæti komist á þennan stað hér heima.“

Minnir á umræðuna um að Internetið hafi verið bóla

Ef Bitcoin er bóla erum við að byggja upp eitthvað sem á síðan eftir að springa? „Ég held að þetta byggi á svolitlum misskilningi. Í fyrsta lagi minnir þetta á umræðuna um að Internetið hafi verið bóla sem muni springa. Vissulega voru mörg Internet-fyrirtæki upp úr aldamótum sem hrundu eða féllu. Internetið er eins og við vitum öll enn mikilvægari þáttur í lífi okkar og í atvinnulífinu en það var þá. Bitcoin er auðvitað bara ein af 1.600 rafmyntum. Það sem skiptir máli í þessu samhengi er að Bitcoin byggir á svokallaðri bálkakeðjutækni eða blockchain sem að margir sérfræðingar í þannig tækni vilja meina að muni umbreyta því hvernig við stundum viðskipti í rótgrónum iðnaði, bankastarfsemi, tryggingastarfsemi og fasteignaviðskiptum til framtíðar. Það muni hafa jafnmikil áhrif á Internetið í því heildarsamhengi. Þannig að ef Bitcoin hrynur í verði þá mundi það ólíklega hafa áhrif á eftirspurn eftir vinnslu gagna, hýsingu gagna og eftirspurn eftir þjónustu gagnavera sem er miklu víðtækara en svo og fjölbreyttara.“

Þarf að leggja þriðja strenginn til að efla markaðinn

Eru margir í biðröð? Vilja margir opna gagnaver á Íslandi? „Við getum orðað það þannig að þau gagnaver sem eru nú til staðar sé mikil eftirspurn eftir þeirra þjónustu, meðal annars erlendis frá. Hins vegar eins og ég nefndi áðan þá hefur staðið gagnaversiðnaðinum fyrir þrifum sú staða sem er uppi í gagnatengingum. Við erum með tvo sæstrengi sem tengja landið við Evrópu og við hjá Samtökum iðnaðarins höfum verið að tala fyrir því að það þurfi að leggja þriðja strenginn og efla þennan markað með gagnatengingar. Þá getum við farið að sjá bæði fjölbreyttari viðskiptavini en núverandi gagnavera og vonandi þá að alþjóðleg tæknifyrirtæki horfi til Íslands varðandi uppbyggingu á gagnaveri líkt og þeir eru að horfa til Írlands, Noregs og Svíþjóðar svo dæmi séu tekin.“

Sjáum við gagnaverin stækka svona hratt til framtíðar? „Það mun vera háð ýmsum breytum hversu hratt gagnaversiðnaðurinn mun stækka en ég vil ítreka það að Bitcoin er ekki drifkraftur þeirrar stækkunar eða vaxtar. Gagnaverin eru að vaxa, kúnnahópurinn þeirra er að verða fjölbreyttari og svo framvegis. Við getum tekið dæmi um bílaframleiðendur, kvikmyndaframleiðendur, við erum í samstarfsverkefni en gagnaver á Íslandi eru í samstarfi við háskólarannsóknarsjúkrahús í Bandaríkjunum varðandi vísindi og þróun á hjartaaðgerðum. Það er gríðarlega mikið spennandi og jákvætt í gangi í þessum verkefnum.“

Áframhaldandi uppbygging á raforkukerfinu á sjálfbæran hátt

Höfum við mikið svigrúm til að fjölga gagnaverum eða er það háð þessum orkumálum? „Það er háð bæði orkumálunum, það er að segja framboði af raforku, en þá skulum við líka hafa í huga rafbílavæðinguna sem er framundan og orkuskipti í samgöngum og fleira. Við þurfum að halda áfram á þeirri vegferð að byggja upp raforkukerfið okkar. Þessar tækniframfarir eru knúnar áfram af raforku inn í framtíðina annars munum við bara dragast aftur úr. Þannig að ég held að þetta sé mikilvægt og það þarf að taka umræðuna út frá sjálfbærni og halda áfram að byggja raforkukerfið okkar upp á sjálfbæran hátt en það mun vissulega vera háð hvernig við gerum það mun vissulega skipta sköpum fyrir gagnaversiðnaðinn ásamt gagnatengingum og fleiri þáttum sem við höfum verið að leggja áherslu á.“

Þegar Sigríður er spurð hvort samtökin vilji sjá þetta í stækkun eða fleiri virkjunum eða hvort megi fara að skipta út miðað við að álver séu til sölu? „Við höfum ekkert sérstaklega verið að tala fyrir auknum virkjunum. Nú erum við kannski komin inn á raforkumálin heilt yfir. En það þarf að vera fyrirsjáanleiki til frambúðar með raforku. Það er hægt að byggja flutningskerfið okkar upp. Þetta snýst ekki bara um framleiðslu rafmagns heldur einnig flutning á raforku. Þetta eru bæði veitur og flutningskerfi. Þetta er svolítið önnur umræða sem tekur tíma að fara yfir. En við viljum bara sjá skilvirka áframhaldandi uppbyggingu á raforkukerfinu en að sjálfsögðu með umhverfissjónarmið og sjálfbærni í huga.“

Á vef RÚV er hægt að hlusta á viðtalið við Sigríði, 18. júlí 2019.

Á vef RÚV er hægt að horfa á frétt um gagnaver á Íslandi þar sem meðal annars er rætt við Jóhann Þór Jónsson, formann Samtaka gagnavera (DCI), og Þórdísi Kolbrúnu Reykfjörð Gylfadóttur, ráðherra, 17. júlí 2019.

Á vef Viðskiptablaðsins er rætt við Sigríði um gagnaversiðnaðinn, 18. júlí 2019.

Á vef RÚV er frétt, 18. júlí 2019.