Fréttasafn



2. ágú. 2022 Almennar fréttir Starfsumhverfi

Jákvætt að hefja á aftur flutning á korni frá Úkraínu

Sigurður Hannesson, framkvæmdastjóri SI, segir í frétt Morgunblaðsins það vera jákvætt að samkomulag hafi náðst milli Rússlands og Úkraínu um að hefja flutning á korni á ný en það sé þó áhyggjuefni ef samningurinn nær ekki fram að ganga í ljósi árásar Rússa á Ódessa-höfn degi síðar, þar sem korn er unnið til flutnings. „Það er auðvitað áhyggjuefni ef ekki verður hægt að flytja út þessar vörur, þá er hætt við því að þessi óstöðugleiki á markaðnum dragist á langinn, verð verði hærra lengur og það taki lengri tíma fyrir markaðinn að jafna sig. Það eru þó vonir um að það sé að komast á jafnvægi. Við höfum séð hvernig hrávöruverð hefur lækkað og markaðirnir eru að ná jafnvægi, en verðlagsáhrifin eru að koma fram núna og verða jafnvel eitthvað meiri.“ 

Innrásin hefur mikil áhrif á hrávöruverð 

Þá segir í frétt Morgunblaðsins að innrásin í Úkraínu hafi haft mikil áhrif á hrávöruverð í heiminum. „Áhrifanna gætir út um allan heim og við sjáum það mjög glöggt í verðbólgumælingum. Þetta kemur við sögu út um allt, neytendur og atvinnurekendur finna fyrir þessu og framleiðslufyrirtæki og fyrirtæki í byggingariðnaði verða mjög vör við þessar hækkanir. Þetta hefur mjög mikil áhrif á þeirra rekstur,“ segir Sigurður og bendir á að í sumum tilvikum hafi orðið erfiðara að fá aðföng. „Vegna stríðsins hafa einhverjir markaðir lokast, timbur og stál kemur að einhverju leyti frá Rússlandi og Hvíta-Rússlandi, en þeir markaðir lokuðust. Þá þurfti að finna nýja markaði samhliða hækkandi verði.“ 

Bakarar vilja sjálfir flytja inn hveiti

Einnig kemur fram í fréttinni að nýlega hafi verið greint var frá því að bakarar á Íslandi vilji sjálfir flytja inn hveiti vegna verðhækkana. „Ég held að þetta sýni vel að það eru allir að leita allra leiða til að takast á við stöðuna, til þess að þurfa ekki að velta öllum þessum hækkunum út í verðlagið til neytandans, og það á við í allri framleiðslu.“ 

Morgunblaðið / mbl.is, 25. júlí 2022.