Jákvætt að Ísland fær lægstu mögulegu tolla
Sigurður Hannesson, framkvæmdastjóri Samtaka iðnaðarins, segir í samtali við fréttastofu Vísis um tolla-ákvarðanir Bandaríkjaforseta að Bandaríkin séu mikilvægur markaður fyrir Íslendinga. „Þetta þýðir að góðu fréttirnar fyrir Ísland er að það er lagður tíu prósent tollur á vörur frá Íslandi á meðan að tollur til dæmis á vörur frá Evrópusambandinu er tuttugu prósent og fimmtán prósent frá Noregi. Við sjáum líka miklu hærri tölur í öðrum löndum.“
Bandaríkin vaxandi markaður fyrir Íslands
Þá segir Sigurður í frétt Vísis að þó að þetta séu í grunninn slæmar fréttir þá komi þetta hlutfallslega betur við Ísland en mörg önnur ríki. Bandaríkin séu vaxandi markaður fyrir Ísland og útflutningur á vörum þangað verið að aukast. „Þetta er mjög mikilvægur markaður fyrir hugverkaiðnað sem er fjórða stoð útflutnings og gæti orðið verðmætasta stoðin við lok þessa áratugar. Við höfum haft þær áhyggjur að ef aðgangur að Bandaríkjamarkaði yrði ekki eins greiður þá gæti það haft áhrif á vöxt hugverkaiðnaðs. Það er allavega mjög jákvætt að við erum í lægsta mögulega tolli. Eigum við ekki að segja að þetta kemur eins vel við okkur og hægt er.“
Hér er hægt að lesa fréttina í heild sinni.
Vísir, 2. apríl 2025.