Fréttasafn



6. jan. 2021 Almennar fréttir Iðnaður og hugverk

Jákvætt fyrir efnahag landsins að álverð hækkar

Rætt er við Gunnar Guðlaugsson, forstjóra Norðuráls og stjórnarformann Samáls, í fréttum Stöðvar 2 um hækkun á álverði en heimsmarkaðsverð á áli hefur rokið upp á undanförnum mánuðum og hækkað um ríflega 40% frá því verðið var lægst síðastliðið vor. Í fréttinni kemur fram að Gunnar segir þetta gríðarlega mikilvægt fyrir efnahag landsins. Einnig kemur fram að eftir að ferðaþjónustan hrundi sé áliðnaður á ný orðinn næst stærsta útflutningsgrein landsins á eftir sjávarútvegi. Það hafi hins vegar ekki blásið byrlega fyrir greininni í vor þegar álverð fór niður undir 1.400 dollara á tonnið. En dæmið hafi snúist við í júní og síðan hafi álverð hækkað jafnt og þétt og standi núna í rúmlega 2.000 dollurum.

„Auðvitað er þetta bara mjög jákvætt að álverð hefur hækkað og meðalverð ársins kannski ekki alslæmt. Þetta bara orsakast af aukinni eftirspurn, bæði í Evrópu og Asíu, og kannski ekki síst í Kína.“ Þá hafi fréttir af bóluefni haft jákvæð áhrif. „Heimurinn fyllist bjartsýni og þá fer fólk að eyða og hagvöxtur eykst og það hefur jákvæð áhrif á álverð,“ segir Gunnar meðal annars í fréttum Stöðvar 2.

Vísir, 5. janúar 2020.