Fréttasafn29. sep. 2020 Almennar fréttir Félag vinnuvélaeigenda Mannvirki Starfsumhverfi

Jarðvinna verði hluti af átakinu Allir vinna

Samtök iðnaðarins og Samtök atvinnulífsins fagna mjög þeim áformum að framlengja eigi átakinu Allir vinna út næsta ár en samtökin telja þó að endurskoða eigi ákveðna þætti átaksins samhliða framlengingu á úrræðinu og hvetja eindregið til þess að gerðar verði nauðsynlegar laga- og reglugerðarbreytingar til að fella jarðvinnu undir endurgreiðsluheimildina. Auk þess sem samtökin vilja að endurgreiðslan á virðisaukaskatti nái einnig til vinnu manna á verkstæði. Þetta kemur fram í sameiginlegri umsögn samtakanna um átakið en um er að ræða tímabundna endurgreiðslu virðisaukaskatts vegna vinnu við byggingarframkvæmdir úr 60% í 100%.  Í umsögninni segir að átakið sé mikilvægur liður í því m.a. að draga úr svartri atvinnustarfsemi og skapa jákvæða hvata til að eiga viðskipti við heilbrigð fyrirtæki og fagmenn.

Jarðvinna markar upphaf framkvæmda og óskiljanlegt  að hún sé tekin út

Félag vinnuvélaeigenda hefur einnig sent umsögn í samráðsgátt stjórnvalda um átakið Allir vinna þar sem kemur fram að jarðvinna sé í mörgum tilvikum stór hluti þeirrar vinnu sem unnin sé á verkstað og sú vinna sem marki upphaf framkvæmda í kjölfar hönnunar. Með endurgreiðslunni sé m.a. verið að hvetja til nýframkvæmda og því óskiljanlegt að jarðvinna sé sérstaklega  tekin út. Félagið hvetur stjórnvöld eindregið til þess að gerðar verði nauðsynlegar laga- og reglugerðarbreytingar til að færa jarðvinnu undir úrræðið. Í umsögninni segir að úrræðið sé víðtækt og nái yfir allar starfsgreinar mannvirkjagerðar að einni undanskilinni og verði því ekki betur séð en að hér sé um að ræða mismunun milli starfsgreina í einstaklega erfiðu og ófyrirséðu árferði.

Hér er hægt að nálgst umsögn SI og SA.

Hér er hægt að nálgast umsögn Félags vinnuvélaeigenda.