Fréttasafn25. apr. 2023 Almennar fréttir Mannvirki Orka og umhverfi

Jáverk hlýtur umhverfisviðurkenningu

Umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra, Guðlaugur Þór Þórðarson, veitti í dag fyrirtækinu Jáverk sem er aðildarfyrirtæki SI Kuðunginn, umhverfisviðurkenningu umhverfis-, orku- og loftslagsráðuneytisins, fyrir framúrskarandi starf að umhverfismálum á síðasta ári. Fyrirtækið Gefn hlaut jafnframt viðurkenningu.

Á vef Stjórnarráðsins kemur fram að í rökstuðningi dómnefndar fyrir valinu á Jáverk sem handhafa Kuðungsins 2022 kemur fram að Jáverk hafi verið fyrsta umhverfisvottaða byggingarfyrirtækið á Íslandi, en fyrirtækið varð í fyrra Svansleyfishafi. Jáverk hafi í starfi sínu innleitt nýjungar sem sýna samfélagslega ábyrgð. Þannig lífsferilsgreina þau öll verk og reikna innbyggt kolefni bygginga og orkunýtingu í Svansvottuðum verkefnum. Um 35% af losun gróðurhúsalofttegunda á heimsvísu má rekja til byggingariðnaðarins og segir dómnefnd framlag Jáverks til umhverfismála því mikilvægt. Rík áhersla sem fyrirtækið leggi á fræðslu starfsfólks sé ekki síður lofsverð. Starfsfólk Jáverk hlýtur m.a. þjálfun í efnisflokkun og þá fá verkstjórar þjálfun í vottunum og grunnumhverfisfræðslu. Fræðslan hefur haft jákvæð áhrif og aukið umhverfisvitund starfsmanna og eru undirverktakar í stórum stíl byrjaðir að óska eftir sambærilegri þjálfun. 

Á myndinni er Guðlaugur Þór Þórðarson, umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra, ásamt starfsmönnum Jáverk sem tóku við viðurkenningunni. Lengst til hægri er Gylfi Gíslason, framkvæmdastjóri Jáverks.

Nánari upplýsingar um viðurkenninguna er að finna á vef Stjórnarráðsins.