Fréttasafn24. jan. 2019 Almennar fréttir Iðnaður og hugverk Menntun

JE vélaverkstæði gefur VMA plasmaskurðarvél

JE vélaverkstæði á Siglufirði sem er aðildarfyrirtæki SI hefur fært málmiðnaðarbraut VMA að gjöf plasma-skurðarvél. Á vef VMA er sagt frá gjöfinni og að starfsmaður fyrirtækisins hafi farið í VMA til að kenna kennurum og nemendum á vélina. Þetta er afar höfðingleg gjöf og ómetanlegt fyrir skólann að fá slíkan stuðning fyrirtækis í greininni, segir Hörður Óskarsson, brautarstjóri málmiðngreina í VMA. 

Plasma-skurðarvélin er tengd við tölvu sem hefur ekki ósvipað viðmót og venjulegar pc-tölvur. Tölvan keyrir mismunandi forrit og möguleikarnir eru margir. Það sem áður tók mannshöndina langan tíma að gera tekur vélina aðeins örstund að klára. Vinnu- og tímasparnaðurinn er því ótvíræður og nákvæmnin meiri.

Á vef VMA kemur fram að Guðni Sigtryggsson, framkvæmdastjóri JE vélaverkstæðis, sem á fyrirtækið á móti Gunnari Júlíussyni, segir afar ánægjulegt að vélin komi að góðum notum í VMA. „Við hefðum vissulega getað selt hana fyrir um tvær milljónir króna en ég vildi frekar láta málmiðnaðarbrautina í VMA fá hana til að nota við kennslu. Sjálfur var ég í Vélskólanum á Akureyri og síðar Vélskólanum í Reykjavík og Iðnskólanum í Hafnarfirði á níunda áratugnum. Á þeim tíma fannst mér skorta að skólarnir væru búnir nýjasta tækjabúnaði þess tíma og því vantaði okkur nemendurna ákveðna kunnáttu þegar út í atvinnulífið var komið. Þegar ég hugsaði málið fannst mér að VMA þyrfti á þessari skurðarvél að halda og ég taldi rétt að styðja við námið á málmiðnaðarbrautinni með þessum hætti.“

Hjá JE vélaverkstæði starfa níu starfsmenn í smíði og ýmsum viðgerðum og til viðbótar starfa fjórir við viðhald báta en til nokkurra ára smíðaði fyrirtækið plastbáta. Allt landið er undir hjá fyrirtækinu en stór hluti verkefna þess eru á Siglufirði, m.a. tengd sjávarútveginum og hjá nýsköpunarfyrirtækjunum Primex og Genis.