Jólaauglýsing SI - Piparkökuhúsið
Samtök iðnaðarins hafa birt nýja sjónvarpsauglýsingu þar sem landsmönnum er óskað gleðilegra jóla og kraftmikillar uppbyggingar á nýju ári.
Auglýsinging var gerð af Aton fyrir SI. Leikstjóri er Atli Bollason. Tökumaður er Edda Kristín Óttarsdóttir. Leikarar eru Ólafur Ágeirsson, Birna Rún Eiríksdóttir og Aníta Apríl. Handritsgerð og framkvæmd: Aton.
Hér er hægt að nálgast auglýsinguna á Youtube:
https://www.youtube.com/watch?v=qYEkXH-V6_w
Hér er hægt að nálgast auglýsinguna á Vimeo:
https://vimeo.com/1143978669?share=copy&fl=sv&fe=ci
Látum ekki óþarfa flækjur skemma piparkökubaksturinn
Samtök iðnaðarins hafa lengi bent á að óþarflega flókið, ósamræmt og íþyngjandi ferli uppbyggingar og regluverk getur gert það óraunhæft eða óþarflega dýrt að byggja það húsnæði sem samfélagið þarf. Auglýsingin er bæði ádeila og hvatning: hún beinir kastljósinu að hindrunum sem tefja nauðsynlega uppbyggingu og koma úr ólíkum áttum en á sama tíma hvetur hún til þess að við leysum málin af skynsemi og gefum ekkert eftir þegar kemur að kröfum um gæði og skilvirkt eftirliti. Saman verðum við að tryggja að gæði haldist há en að leiðin að þeim sé skilvirk, hagkvæm og fyrirsjáanleg.
Um hvað er auglýsingin?
Jólaauglýsing SI fjallar um mæðgur sem eru að búa til piparkökuhús en verða fyrir stöðugum og sífellt undarlegri athugasemdum föðursins. Mæðgurnar vilja búa til fallegt og vandað piparkökuhús og þeim tekst það að lokum. Faðirinn truflar ferlið með athugasemdum sem virðast í fyrstu smávægilegar og skynsamar en verða þegar allt kemur saman íþyngjandi og óskiljanlegar. Þær eiga sér þó rætur í raunverulegu regluverki og verklagi sem margir sem koma að uppbyggingu þekkja af eigin raun.
Af hverju eru SI að gera þetta?
Ástæða þess að SI ráðast í gerð auglýsingarinnar er að húsnæðisuppbygging stenst ekki núverandi og framtíðarþarfir samfélags í örum vexti. Ríki, sveitarfélög og iðnaðurinn gegna lykilhlutverki í húsnæðismálum en samspil ferla, regluverks, skipulags og aukinnar gjaldtöku hefur of oft skapað óþarflegan kostnað og tafir.
Flókið ferli og íþyngjandi og ósamræmt regluverk leggur til verulegan hluta kostnaðar við byggingarframkvæmdir og tefur nauðsynlega uppbyggingu. Við það bætist langvarandi lóðaskortur og framboðsleysi auk sífellt hækkandi gjaldtöku sveitarfélaga, sem endar í hærri byggingarkostnaði og tegundum fasteigna sem mæta ekki eftirspurn.
Hvatning til stjórnvalda og sveitarfélaga
Til að ná stöðugleika á húsnæðismarkaði og tryggja uppbyggingu í takt við fjölbreyttar þarfir samfélagsins þarf samstillt átak allra aðila. Stjórnvöld vinna nú að mótun nýrra húsnæðisúrræða og tækifærin til úrbóta eru fjölmörg.
Samtök iðnaðarins hvetja stjórnvöld, ríki og sveitarfélög til að:
- Auka framboð lóða og skapa hvata til uppbyggingar svo hægt sé að mæta þörfum til lengri tíma.
- Einfalda íþyngjandi ferla, lög og regluverk með það markmið að stytta ferla og draga úr óþarfa kostnaði.
- Móta skilvirkt gæðaeftirlit sem tryggir samkeppnishæfni þeirra fyrirtækja sem koma að hönnun og uppbyggingu.
- Samræma reglur og gjaldtöku milli sveitarfélaga til að tryggja jafnræði, fyrirsjáanleika og skilvirkni í starfsumhverfinu.


