Fréttasafn



28. maí 2015 Gæðastjórnun

JS Hús hlýtur D-vottun

JS Hús hafa hlotið D-vottun Samtaka iðnaðarins. D-vottun er fyrsti hluti gæðavottunarkerfis SI sem tekið er upp í fjórum áföngum. Með gæðavottunarkerfinu er stefnt að því að gera rekstur fyrirtækja skilvirkari. Í því fer fyrirtækið í gegnum stefnumótun þar sem afkoma hvers verks eða vöru er skilgreind með það að markmiði að auka framleiðni og hagnað fyrirtækisins.

 

Jón Sigurðsson húsasmíðameistari er eigandi og framkvæmdastjóri JS-hús ehf. Hann hefur staðið fyrir eigin rekstri frá ársbyrjun 1990. Helstu verkefni eru utanhússviðgerðir og endurinnrétting atvinnuhúsnæðis ásamt þjónustu við fyrirtæki og stofnanir.

 

Auk þess að leggja áherslu á fagleg vinnubrögð við úrlausn verkefna hefur mikil áhersla verið lögð á að bæta rekstur og utanumhald. Mikið framfaraspor var stigið fyrir nokkrum árum þegar fyrirtækið hóf að nota handskanna við skráningu á efni og áhöldum. Skráning og yfirsýn stórbatnaði auk þess sem kostnaður við skrifstofuhald og yfirbyggingu minnkaði og reksturinn varð gagnsær sem auðveldar ákvarðanatöku og stjórnun.    

Starfsmannafjöldinn sveiflast eðlilega í takt við umsvifin á hverjum tíma en alla jafna eru starfsmenn á bilinu 5 til 15.