Fréttasafn



26. ágú. 2020 Almennar fréttir Mannvirki Starfsumhverfi

Kæru SI vegna kvörtunar til Neytendastofu vísað frá

Áfrýjunarnefnd neytendamála hjá Neytendastofu hefur vísað frá kæru Samtaka iðnaðarins sem snýr að kvörtun til Neytendastofu vegna viðskiptahátta fyrirtækis sem samtökin töldu brjóta gegn góðum viðskiptaháttum. Kvörtunin snéri að því að fyrirtækið kynnti í markaðssetningu sinni að það byði upp á þjónustu á sviði skrúðgarðyrkju án þess að nokkur meistari veitti starfseminni forstöðu auk þess sem þar væru starfandi einstaklingar sem hefðu ekki starfsréttindi á sviðinu. Bent var á að fyrirtækið gæfi til kynna í auglýsingaefni sínu að þar störfuðu sérfræðingar á sviði skrúðgarðyrkju. Vísað var meðal annars til þess að samkvæmt iðnaðarlögum skuli iðngreinar sem reknar séu sem handiðnaður og löggiltar hafa verið í reglugerð ávallt reknar undir forstöðu meistara. Þar segir meðal annars að rétt til iðnaðarstarfa í slíkum iðngreinum hafi meistarar, sveinar og nemendur í viðkomandi iðngrein og að skrúðgarðyrkja sé löggilt iðngrein.

Neytendastofa aðhafðist ekki vegna málsins og því kærðu Samtök iðnaðarins þá ákvörðun til áfrýjunarnefndar neytendamála. Nú hefur áfrýjunarnefndin vísað kærunni frá með þeim rökum að SI skorti aðild samkvæmt stjórnsýslulögum til þess að geta kært ákvörðun Neytendastofu. Í úrskurðinum segir meðal annars að það skorti á það grundvallarskilyrði að kærandi hafi nægjanlega sérstaka eða lögvarða hagsmuni af úrlausn málsins og að almennir hagsmunir hóps manna skapi ekki aðila stöðu í máli en leggja verði til grundvallar að þótt menn sem ekki hafi aðilastöðu öðru jöfnu stofni samtök til þess að berjast fyrir ákveðnum hagsmunum öðlist samtökin ekki við það sjálfkrafa aðild að máli þar sem á þá hagsmuni reyni. 

Hér er hægt að nálgast úrskurð áfrýjunarnefndar neytendamála.

Samtök iðnaðarins vilja aukið eftirlit með iðnaðarlögunum

Að mati Samtaka iðnaðarins leiðir úrskurðinn til þess að hvorki heildarsamtök iðnrekenda né einstök fagfélög geti leitað til Neytendastofu vegna villandi markaðssetningar þar sem einstaklingar og fyrirtæki markaðssetja sig sem fagmenn á sviði löggiltra iðngreina án þess að einstaklingar með réttindi starfi hjá fyrirtækinu. 

Samtök iðnaðarins telja því að vegna þeirrar stöðu sem uppi er að þeim mun mikilvægara sé að skilvirkni sé aukin í eftirliti hins opinbera með brotum á lögum um handiðnað og tryggt sé að neytendur, sem eftir atvikum eru grandalausir um réttindaleysi þjónustuaðila, fái viðhlítandi upplýsingar um réttindi iðnmenntaðra einstaklinga og að það sé tryggt að fyrirtæki geti ekki starfað í trássi við lög um handiðnað.