Kaka ársins afhent á Bessastöðum
Davíð Arnórsson, bakari hjá Stofan bakhús í Vestmannaeyjum og höfundur Köku ársins 2017, mætti ásamt syni sínum Degi Davíðssyni á Bessastaði í morgun og afhendi frú Elizu Reid fyrstu kökuna. Forseti Íslands, Guðni Th. Jóhannesson, fékk fyrstu sneiðina af kökunni. Við afhendinguna sagði Davíð frá samsetningu kökunnar sem er lagskipt og inniheldur m.a möndlukókosbotn, hindberjahlaup og skyrfrómas með lime. Þá sagði Jón Albert Kristinsson, formaður Landssambands bakarameistara, LABAK, frá tilurð og framkvæmd keppninnar. Sala á kökunni hefst í bakaríum LABAK um allt land á morgun föstudaginn 17. febrúar og verður til sölu það sem eftir er ársins. Heitið, Kaka ársins, er skrásett vörumerki sem einungis félagsmönnum LABAK er heimilt að nota.
LABAK hefur um árabil efnt til árlegrar keppni um Köku ársins. Keppnin fer þannig fram að keppendur skila inn tilbúnum kökum sem dómarar meta og velja úr þá sem þykir sameina þá kosti að vera bragðgóð, falleg og líkleg til að falla sem flestum í geð og hlýtur hún titilinn Kaka ársins. Keppnin að þessu sinni var haldin í samstarfi við Mjólkursamsöluna og voru gerðar kröfur um að kakan innihéldi skyr frá MS.
Dómarar í keppninni voru Margrét Kristín Sigurðardóttir frá Samtökum iðnaðarins, Aðalsteinn Magnússon, sölustjóri hjá Mjólkursamsölunni, og Gunnar Örn Gunnarsson, bakarameistari og sölumaður hjá Ölgerðinni.
Umfjöllun um afhendinguna á mbl.is.