Fréttasafn



19. feb. 2015 Iðnaður og hugverk

Kaka ársins færð Kvenréttindafélagi Íslands í tilefni af 100 ára afmæli kosningaréttar kvenna

Forsvarsmenn Landssambands bakarameistara, LABAK, mörkuðu upphaf sölu Köku ársins 2015 með því að færa Kvenréttindafélagi Íslands kökuna að gjöf í tilefni af 100 ára afmæli kosningaréttar kvenna á Hallveigarstöðum í dag. Þar var henni tekið með miklum fögnuði og stjórnarkonur Kvenréttindafélagsins efndu til kaffiboðs fyrir nágranna sína í húsinu. Við það tækifæri sýndu þær brot úr sögu kvennabaráttu á Íslandi í 100 ár á veggspjöldum. Steinunn Stefánsdóttir, formaður Kvenréttindafélagsins, tók við kökunni og sagði við það tilefni að framundan væru fjölmargir viðburðir til að minnast afmælisins og bæði gaman og viðeigandi að tengja Köku ársins þessum tímamótum.

 LABAK efnir árlega til keppni meðal félagsmanna sinna og starfsmanna þeirra til að velja Köku ársins. Í þetta sinn var keppnin haldin í samstarfi við sælgætisgerðina Freyju og var þemað Rommý. Þátttaka vex með hverju ári og bárust 22 kökur í keppnina nú.

Sigurvegari að þessu sinni var Hilmir Hjálmarsson í Sveinsbakaríi.

Almenn sala hefst á föstudag í bakaríum félagsmanna.

Kaka ársins 2015 er lagskipt og inniheldur m.a. súkkulaðibotn, kókosbotn, mulinn marengs, súkkulaðimús og banakaramellu og er hjúpuð glansandi súkkulaði.

Dómarar voru María Rosario Blöndal, Freyju, Ásthildur Guðmundsdóttir, Hótel- og matvælaskólanum og Rakel Pálsdóttir, Samtökum iðnaðarins.