Fréttasafn



10. okt. 2019 Almennar fréttir Mannvirki

Kalla eftir málefnalegri umræðu um innviðagjaldið

Rætt er við Jóhönnu Klöru Stefánsdóttur, sviðsstjóra mannvirkjasviðs SI, og Einar Huga Bjarnason, hæstarréttarlögmann, í Bítinu á Bylgjunni í morgun um stefnu á Reykjavíkurborg vegna innheimtu á innviðagjaldi sem talið er vera ólögmætt. 

Ósmekkleg ummæli borgarstjóra

Um ummæli borgarstjóra í gær þar sem hann talar um verktakagræðgi segir Einar Hugi: „Þessi ummæli eru ekki bara ósmekkleg heldur eru þau líka fjarri öllum raunveruleika. Það er þannig að skipulags- og leyfisgjaldið er hjá borginni og lóðarhafar greiddu borginni einfaldlega þau gjöld sem borgin setti upp til að fá útgefin byggingarleyfi. Þau höfðu einfaldlega ekki annan kost í þessari stöðu. Greiðsla gjaldsins var forsenda þess að framkvæmdir gætu hafist. Minn umbjóðandi og reyndar fleiri sem ég þekki til reyndu að gera fyrirvara við greiðsluna, lögmæti greiðslunnar þegar hún var innt af hendi en fengu þau svör frá borginni að það væri ekki hægt. Þessi orðnotkun sem borgarstjóri viðhefur í þessu viðtali í gær er auðvitað fjarri raunveruleikanum. Ég kalla eftir málefnalegri umræðu um þetta mál í stað gífuryrða og upphrópana sem birtist í þessu viðtali.“

Samtök iðnaðarins hafa gagnrýnt innviðagjaldið frá upphafi

Af hverju ákveða Samtök iðnaðarins að fara í málið? „Það er hlutverk okkar hjá Samtökum iðnaðarins að hlúa að starfsumhverfi okkar fyrirtækja. Þetta er ekki eitthvað sem við erum að fara af stað með núna, þetta hefur legið fyrir frá upphafi, við höfum gagnrýnt þetta gjald frá upphafi. Það ætti ekki að koma neinum á óvart, sérstaklega ekki borginni, að málið sé komið fyrir dómstóla núna,“ segir Jóhanna Klara. Þannig að mælirinn er bara fullur? „Já, við höfum raunverulega enga aðra kosti í stöðunni.“

Kaupendur þurfa að standa straum af innviðagjaldinu

Einar Hugi segir að gjaldið hafi víðtæk áhrif. „Í Vogabyggð einni er innviðakostnaður metinn á 5 milljarða, á hvern fermetra er innviðagjaldið áætlað 23 þúsund krónur sem er á hverja 100 fermetra íbúð 2,3 milljónir. Við vitum hver borgar það. Á endanum eru það kaupendur sem þurfa að standa straum af þessu gjaldi.“

Ekki í boði að hafa þetta hangandi yfir okkur mikið lengur

Jóhanna Klara segir ástæðuna fyrir því að einblínt er á Reykjavíkurborg núna, þó fleiri sveitarfélög innheimti innviðagjöld, að þetta er stærsta sveitarfélagið. „Það eru til allskonar tegundir af þessu gjaldi. Við þurfum að fá úr því skorið hvort að svona gjaldheimta sé bara yfir höfuð í lagi. Þess vegna förum við í þetta mál núna. Það er ekki í boði að hafa þetta hangandi yfir okkur mikið lengur. Það er framtíðaruppbygging framundan.“ Jóhanna Klara segir upphæðirnar hlaupa á milljörðum króna. 

Á vef Bylgjunnar er hægt að hlusta á viðtalið í heild sinni.