Fréttasafn



30. maí 2017 Almennar fréttir Iðnaður og hugverk

Kallað eftir hugmyndum fyrir framtíð norrænnar framleiðslu

Um mánaðarmótin verður nýtt verkefni á vegum norrænu ráðherranefndarinnar sett í gang en um er að ræða hugmyndasamkeppni um lausnir í sjálfvirkni. Leitað er að leiðum til að bæta miðlun þekkingar milli landa og auka hæfni fyrirtækja á sviði sjálfvirkni, einkum þeirra sem bjóða fram tæknina eða eru ráðgefandi á því sviði. Verðlaunin eru allt að 100 þúsund DKR eða 1,5 milljón ISK.

Nordic_home_banner--1-Í kynningu verkefnisins sem er fjármagnað af norrænu ráðherranefndinni og unnið í samstarfi við danskt atvinnulíf segir að framleiðslugreinar séu mikilvæg uppspretta nýsköpunar og samkeppnishæfni. Atvinnugreinin leiki stórt hlutverk í þróun efnahagslífsins og verðmætasköpunar í öllum norrænu löndunum. En þrátt fyrir það hafi störfum í framleiðslu fækkað umtalsvert á síðustu 25 árum. Ástæðurnar séu margvíslegar; framleiðsla er flutt til annarra landa, slakari samkeppnishæfni, útvistun til þjónustuaðila osfrv. Jafnframt segir að það séu fjölmörg tækifæri. Umbreytingin sem felst í fjórðu iðnbyltingunni skapi tækifæri fyrir framleiðslufyrirtæki til að bæta frammistöðu sína þar sem sjálfvirkni og stafræn tækni verði lykilþættir fyrir framleiðslu í framtíðinni. Tækniframfarir muni opna ný markaðstækifæri fyrir framsækin framleiðslufyrirtæki sem geta nýtt nýja tækni til að búa til betri vörur og virðisaukandi þjónustu. Á sama tíma þegar dregur úr notkun á núverandi tækni og lausnum geti þetta ýtt undir framleiðniaukningu og bætt samkeppnishæfni í norrænu framleiðslugreininni.

Hér er hægt að senda inn hugmyndir. Nánar um málið á vefnum challenges.dk.