Fréttasafn



6. sep. 2016 Almennar fréttir Iðnaður og hugverk

Kallað eftir tilnefningum til Hönnunarverðlauna Íslands 2016

Hægt er að senda tilnefningar til Hönnunarverðlauna Íslands fram til miðnættis föstudagsins 9. september og er mögulegt að benda á eigin verk og verk annarra. Markmið með innsendingum er að tryggja að afburða verk fari ekki fram hjá dómnefndinni. Hægt er að tilnefna í tveimur flokkum; Hönnun ársins 2016 og Besta fjárfesting ársins 2016 í hönnun.

Til að hljóta Hönnunarverðlaun Íslands 2016 þurfa hönnuðir að vera félagar í einu af aðildarfélögum Hönnunarmiðstöðvar Íslands eða vera fagmenn á sínu sviði. Ný verk teljast til þeirra verka sem lokið hefur verið við á síðustu tveimur til þremur árum fyrir afhendingu verðlaunanna. Besta fjárfesting í hönnun 2016 er viðurkenning sem veitt verður fyrirtæki sem hefur með eftirtektarverðum hætti fjárfest í hönnun og arkitektúr eða innleitt aðferðir hönnunar í grunnstarfsemi sína. Fyrirtæki sem eiga þess kost að hljóta viðurkenninguna hafa hönnun og arkitekúr að leiðarljósi frá upphafi verka til að auka verðmætasköpun og samkeppnishæfi. Öll fyrirtæki sem starfa á Íslandi koma til greina.

Formaður dómnefndar er Harpa Þórsdóttir, forstöðumaður Hönnunarsafns Íslands og fyrrum deildarstjóri sýningardeildar Listasafns Íslands. Aðrir í dómnefnd eru Almar Guðmundsson, framkvæmdastjóri SI, Katrín Káradóttir, fatahönnuður og fagstjóri fatahönnunardeildar Listaháskóla Íslands, Massimo Santanicchia, arkitekt og lektor við Listaháskóla Íslands, Guðrún Lilja Guðlaugsdóttir, vöru- og iðnhönnuður, og Högni Valur Högnason, grafískur hönnuður.