Fréttasafn



4. apr. 2025 Almennar fréttir Starfsumhverfi

Kann að skapa einhver tækifæri

Rætt er við Sigurð Hannesson, framkvæmdastjóra SI, í Morgunblaðinu um tilkynningu Bandaríkjaforseta um 10% tolla á Ísland og segir Sigurður að ytri skilyrði séu að versna, Bandaríkin hafi verið vaxandi markaður fyrir íslenskar vörur „þannig að þetta er áhyggjuefni fyrir útflutninginn“. 

Þegar Sigurður er spurður hvort væru einhver tækifæri í þessu svarar hann: „Það verður auðvitað að koma í ljós. Það er rétt að hlutfallslega komum við betur út úr þessu en ýmis önnur ríki þannig að það kann að skapa einhver tækifæri“ og bætir við að með tímanum minnki vonandi óvissan. Þá kemur fram í fréttinni að hann segi tvennt skipta SI máli á þessari stundu; að stjórnvöld rói að því öllum árum að koma í veg fyrir að Ísland lendi í tollum gagnvart ESB og að stjórnvöld hugi að því að efla samkeppnishæfni iðnaðarins og atvinnulífsins. „Þá erum við auðvitað að horfa á þætti eins og regluverk, eftirlit, skatta og gjöld. Við horfum á skilyrði til rannsóknar og þróunar, sem hafa verið hagfelld og verða að vera það áfram. Við erum að horfa á raforkumál, svo dæmi séu tekin.“

Morgunblaðið / mbl.is, 4. apríl 2025.

Morgunbladid-04-04-2025