Fréttasafn



20. mar. 2017 Almennar fréttir Iðnaður og hugverk Mannvirki

Kastljósinu beint að innviðum fyrir undirstöður atvinnulífsins

Um helgina fylgdi Morgunblaðinu sérútgáfan Iðnþing 2017 sem gefin var út af Árvakri í samvinnu við Samtök iðnaðarins. Í blaðinu er umfjöllun um Iðnþing 2017 sem haldið var í Silfurbergi í Hörpu undir yfirskriftinni Öflugir innviðir - lífæðar samfélagsins. Í inngangstexta að blaðinu segir að Ísland sé búið að ná sér á strik eftir nokkur erfið ár: Fólkið og fyrirtækin hafa safnað kröftum og eru tilbúin að láta til sín taka, en innviðirnir virðast ekki hafa haldið í við þróunina og gætu farið að hægja á framförum og hagvexti. Samtök iðnaðarins blésu á dögunum til Iðnþings 2017 þar sem kastljósinu var beint að þeim innviðum sem mynda undirstöður atvinnulífs í landinu: orku, vegum og interneti. 

Af erindunum á þinginu má ráða að löngu er orðið tímabært að ræsa vinnuvélarnar og byrja að framkvæma. Lélegt aðgengi að orku hægir á atvinnulífinu á sumum stöðum á landinu á meðan vegakerfið liggur undir skemmdum vegna viðhaldsskorts og álags. Aðeins þrjár leiðslur tengja Ísland við umheiminn á meðan þær eru rösklega tuttugu í hinum ríkjum Norðurlandanna. Ekkert má út af bregða. Ekki er nóg með að þurfi að leysa úr vanda líðandi stundar, heldur þarf að hugsa stórt og reyna að sjá breytingarnar fyrir áður en þær gerast. Ef Ísland á að vera land nýsköpunar og hugvits gerist það ekki að sjálfu sér, og kallar á að réttu innviðirnir séu til staðar.

Hér má nálgast blaðið: Idnthingsblad_2017-03-18