Fréttasafn16. mar. 2017 Almennar fréttir Framleiðsla Menntun

Keppt í málmsuðu

Á Íslandsmóti iðn- og verkgreina sem hófst í Laugardalshöll í morgun eru fjölmargar starfsgreinar innan SI sem taka þátt. Málmiðnaðurinn er ein þeirra greina en keppt verður í málmsuðu, bilanagreiningu kælikerfa og hönnun vökvakerfa undir stjórn málm- og véltæknisviðs IÐUNNAR. Málmur sem eru Samtök fyrirtækja í málm- og skipasmíði ætlar að veita sigurvegurum vegleg verðlaun. 

Fyrirtækin Marel, Vélvík og Frostmark hafa lánað búnað til að sýna en einnig hefur Stálsmiðjan-Framtak tekið þátt í undirbúningi með því að aðstoð við flutninga og uppsetningu á svæðinu. Þá hafa fyrirtækin Héðinn og Marel lagt til ungt fólk til að taka á móti þeim rúmlega 8 þúsund nemendum sem koma í Laugardalshöllina til að kynna sér iðn- og verkgreinarnar í dag og á morgun.

Í kynningarbásnum eru tveir hermar í suðu sem nemendur geta prófað auk þess sem sýndar eru fjölbreyttar vörur sem framleiddar eru af fyrirtækjum innan Málms. Þá eru tveir skjáir sem nemendurnir geta horft á sem sýna annars vegar myndbönd og hins vegar beina útsendingu frá klefunum þar sem málmsuðan fer fram. Á laugardaginn kl. 13.30 verður sérstök verðlaunaafhending í kynningarbásnum.