Fréttasafn



20. des. 2019 Almennar fréttir

Kjörið tækifæri til innviðafjárfestinga

Rætt er við Ingólf Bender, aðalhagfræðing SI, í Fréttablaðinu í dag um vel heppnað skuldabréfaútboð Landsnets í Bandaríkjunum sem bendir til að nú sé kjörið tækifæri til innviðafjárfestinga, einnig hljóti fyrirtæki og almenningur að njóta þess í lægra raforkuverði. „Þetta eru mjög góð tíðindi, bæði fyrir Landsnet og þá sem eru í viðskiptum við þá. Þetta bendir til að fjármagnskostnaður þeirra sé að lækka, jafnvel umtalsvert.“ 

Í  fréttinni segir að hin nýju lán Landsnets séu á talsvert betri kjörum en fyrri lán fyrirtækisins, 3,79% meðalvextir samanborið við 4,56% meðalvexti í fyrra útboði. Alls sé um að ræða 100 milljónir Bandaríkjadala, eða 12,3 milljarða króna. Um 70% fjármagnsins verði notað til að greiða stofnlán frá Landsvirkjun en afgangurinn fari í nýfjárfestingar í innviðum. „Ástæðurnar sem liggja að baki betri vaxtakjörum eru í fyrsta lagi að grunnvextir hafa lækkað erlendis. Einnig erum að sjá að staða ríkisfjármála hérna heima hefur batnað verulega sem skilar sér í lægra vaxtaálagi, sama má segja um stöðu hagkerfisins frá því síðast þegar Landsnet fór í skuldabréfaútboð. Það er fagnaðarefni að sjá að Landsnet sé að fá þetta miklu betri vaxtakjör en áður og við ættum að sjá það koma fram í lægra raforkuverði.“ 

Mjög hagstætt vaxtaumhverfi fyrir innviðaframkvæmdir

Þá segir í fréttinni að með skuldabréfaútgáfunni hafi Landsnet einnig náð að afla fjár til fjárfestinga á næsta ári, en dreifikerfi raforku hafi verið í deiglunni síðustu daga í kjölfar óveðursins. Ingólfur segir vaxtaumhverfið mjög hagstætt til að fara í innviðaframkvæmdir, en auknar innviðaframkvæmdir eru einnig til þess fallnar að kippa landinu upp úr efnahagslægðinni. „Það eru sögulega lágir vextir sem er þá kjörið tækifæri fyrir ríki og sveitarfélög til að gera átak í að vinna upp uppsafnaða þörf í innviðaframkvæmdum.“ 

Fréttablaðið / Frettabladid.is, 20. desember 2019.