Klæðskera- og kjólameistari saumaði árshófskjól formanns SI
Selma Ragnarsdóttir, klæðskera- og kjólameistari, saumaði kjól á Guðrúnu Hafsteinsdóttur, formann SI, fyrir árshóf samtakanna sem fram fór í Hörpu fyrr í mánuðinum. Í viðtali á mbl.is segir Selma kjólinn vera klassískan úr silkisatíni. „Í byrjun hentum við á milli okkar hugmyndum og myndum af kjólum en ég vissi fyrir fram að hennar litir væru annaðhvort rauður eða blár. Guðrún er svo glæsileg kona þannig að þó nokkrir kjólar komu til greina en við vorum sammála um að kjóllinn yrði alls ekki svartur.“
Í viðtalinu kemur fram að Selma hafi starfað lengi í greininni og ýmislegt hafa breyst í kjölfar þess að fólk versli föt í auknum mæli á netinu auk þess sem hún finni fyrir aukinni umhverfisvitund. „Hátt hlutfall þess sem pantað er passar ekki eða er allt öðruvísi en það var á mynd þegar það svo kemur. Við klæðskerar fáum oft fyrirspurnir um lagfæringar á svona mistökum. Umhverfisvæn hugsun og nýting á fatnaði sem hægt er að laga eða nýta í annað er jákvætt skref og tek ég mikið af svoleiðis verkefnum að mér.“
Á mbl.is er hægt að lesa viðtalið við Selmu í heild sinni.
Guðrún Hafsteinsdóttir, formaður SI, í kjólnum sem Selma saumaði.