Fréttasafn26. feb. 2021 Almennar fréttir Starfsumhverfi

Klár merki um viðsnúning

Í Fréttablaðinu er rætt við Ingólf Bender, aðalhagfræðing SI, um niðurstöður nýrrar könnunar sem gerð var meðal stjórnenda aðildarfyrirtækja SI þar sem kemur fram að mun meiri bjartsýni ríkir meðal stjórnenda iðnfyrirtækja nú en fyrir ári. 

Í fréttinni kemur fram að samkvæmt nýrri könnun Samtaka iðnaðarins meti 43% þeirra aðstæður í efnahagslífinu góðar en 19% slæmar. Í apríl í fyrra hafi aðeins 24% metið aðstæðurnar góðar og 52% slæmar. Hlutfallið nú sé meira að segja hærra en árið 2019. Einkum sé horft til seinni helming ársins til viðsnúnings, það sé meiri tekna og fleiri ráðninga starfsfólks. Þá kemur fram að 42% telja að tekjur verði meiri á þriðja og fjórða ársfjórðungi 2021 en þær voru 2020 og í kringum 20% telja að fjöldi starfsmanna verði meiri. 20 prósent telja vera skort á starfsfólki samanborið við 10 prósent í fyrra. „Við sjáum klár merki um viðsnúning. Bæði hvað varðar mat á núverandi stöðu og framtíðarhorfur í efnahagsumhverfi iðnaðarins. Einnig hvað varðar tekjur og fjölda starfa iðnfyrirtækja. Niðurstöðurnar benda hins vegar ekki til þess að viðsnúningurinn verði snarpur. Rímar það ágætlega við spár um hægan hagvöxt á árinu.“ 

Hagstjórnarviðbrögðin hafa virkað

Ingólfur segir í fréttinni að viðbrögð ríkisins, sveitarfélaga og Seðlabankans við efnahagsáfallinu hafi virkað til að milda höggið fyrir greinina. Aðgerðir í peningastjórnun, svo sem lækkaðir vextir og aukið aðgengi að fjármagni, hafi hjálpað og aðgerðir í opinberum fjármálum með áherslu á nýsköpun, innviði, starfsumhverfi og menntun hafi einnig skipt miklu máli. Þá segir að niðursveiflan nú hafi verið mildari fyrir iðnaðinn en margar fyrri niðursveiflur. Eðli niðursveiflunnar og hagstjórnarviðbrögð skipti þar máli „Hagstjórnarviðbrögð við faraldrinum hafa virkað fyrir iðnaðinn líkt og hagkerfið allt.“ 

Iðnaðurinn hefur burði til að verða drifkraftur uppsveiflunnar

Í fréttinni segir jafnframt að samtökin spái ekki nákvæmlega fyrir um hvenær iðnaðurinn verði efnahagslega kominn á sama stað og fyrir faraldurinn. Ingólfur segir að það verði þó hvorki á þessu ári né því næsta. „Það er ljóst að iðnaðurinn hefur burði til að verða drifkraftur uppsveiflunnar nú með svipuðum hætti og í síðustu uppsveiflu, þegar hann skapaði þriðjung hagvaxtarins. Greinin er stór og skapar um fimmtung landsframleiðslunnar og starfa í landinu. Vöxtur iðnaðarins er því mikilvægur fyrir vöxt hagkerfisins.“ 

Fréttablaðið / Frettabladid.is, 26. febrúar 2021.  

Frettabladid-26-02-2021-2-