Fréttasafn



20. feb. 2019 Almennar fréttir

Kólnun blasir við í hagkerfinu

Undanfarna mánuði hafa fyrirtæki sagt upp starfsfólki og bendir allt til að svo verði áfram næstu mánuði. Kólnun blasir við. Laun á Íslandi eru há í alþjóðlegum samanburði. Með gríðarlegum launahækkunum í kólnandi hagkerfi og án þess að nokkur hvalreki sé í augsýn verður gengið á höfuðstólinn. Á því töpum við öll. Þetta segir Sigurður Hannesson, framkvæmdastjóri SI, í grein sinni sem birtist í Markaðnum í dag.

Sigurður segir jafnfram að á undanförnum árum hafi orðið breytingar til hins betra á íslensku hagkerfi þó enn sé nokkuð í land með að langþráður stöðugleiki verði að veruleika. Stoðir hagkerfisins séu mun sterkari en áður og því megi segja að höfuðstóllinn hafi vaxið. Markvissar aðgerðir hafi skilað þessum árangri en honum sé hins vegar hægt að glutra niður á stuttum tíma og bendi margt til þess að sú verði raunin miðað við stöðuna á vinnumarkaði.

Þá segir Sigurður að kjarasamningar hafi verið undirritaðir í janúar 2016 sem kváðu á um talsverðar hækkanir og að á þeim tíma var því spáð að verðbólga myndi aukast en sú hafi ekki orðið raunin. „Þá var hagkerfið enn í miklum vexti þannig að meira var til skiptanna en nú. Hins vegar leysti losun hafta talsverða orku úr læðingi með mjög jákvæðum efnahagslegum áhrifum og ytri aðstæður voru hagfelldar. Hvorugt á við nú. Hvalreki sambærilegur við losun hafta er ekki í augsýn auk þess sem nú hægir á gangi hagkerfisins og benda öll merki í sömu átt. Seðlabankinn spáir mun minni vexti á þessu ári en undanfarin ár. Leiðandi hagvísir Analytica hefur lækkað 12 mánuði í röð og bendir til stöðnunar og óvissu næstu misserin.“

Hér er hægt að lesa grein Sigurðar í heild sinni.