Fréttasafn



14. des. 2017 Almennar fréttir Iðnaður og hugverk

Koma ætti Íslandi hærra á lista vörumerkja landa

Í Viðskiptablaðinu í dag er umfjöllun um niðurstöður úttektar þar sem lagt er mat á vörumerki landa þar sem Ísland er í 15. sæti. Á toppnum trónir Japan sem þykir vera sterkasta vörumerkið, í öðru sæti er Sviss og því þriðja er Þýskaland en í neðsta sæti er Nígería. Þegar miðað er við önnur Evrópulönd er Ísland í 9. sæti. Úttektin er unnin er af FutureBrand og er ætlað að leggja mat á viðhorf og hugrenningatengsl fólks frá sautján ríkjum gagnvart 75 ólíkum löndum í heiminum. 

Rætt er við Sigurð Hannesson, framkvæmdastjóri Samtaka iðnaðarins, sem segir niðurstöðurnar í grunninn vera jákvæðar en telur vörumerkið Ísland búa yfir mörgum sóknarfærum. „Það er jákvætt að sjá að við erum þarna í 15. sæti í tiltölulega sterkri stöðu og í 9. yfir þjóðir Evrópu. Það er þó auðvitað ýmislegt þarna, þegar maður fer að rýna í gögnin, sem maður sér að má betur fara. Við skorum hátt í nokkrum þáttum þarna, eins og er varðar náttúruna. En þegar kemur að viðskiptamöguleikum þá dregur það okkur niður, eins með virði fyrir peninginn, þau og önnur sem varða samkeppnishæfnina eru að draga okkur niður. Að mínu mati eru tækifæri þar til þess að gera betur, vinna í því og komast þar af leiðandi hærra,“ segir Sigurður sem telur mikilvægt að  fjölga vörumerkjum sem fólk tengir við Ísland.

Viðskiptablaðið, 14. desember 2017.