Fréttasafn



7. sep. 2017 Almennar fréttir Mannvirki

Kosningabaráttan mun snúast um aukið framboð á lóðum

Sigurður Hannesson, framkvæmdastjóri SI, segir í viðtali Viðskiptablaðsins að það sé enn skortur á lóðum sem sjáist til dæmis á því að öflugir verktakar eru farnir að byggja í sveitarfélögum í kringum höfuðborgarsvæðið, meðal annars í Reykjanesbæ og á Suðurlandi, því þeir fái ekki lóðir á höfuðborgarsvæðinu sjálfu. 

Hann segir að sjá hefði mátt fyrir þær að­stæður sem eru nú uppi á fasteignamarkaði. „Samtök iðnaðarins standa fyrir talningu íbúða tvisvar á ári, á vorin og haustin, og það var löngu ljóst að hér var of lítið byggt. Framboð væri allt of lítið miðað við eftirspurnina.“ Hann segir þessa þróun vera áhugaverða enda dreifi hún íbúðabyggðinni enn meira. „Þetta leiðir meðal annars af stefnu um þéttingu byggðar. Þó að hún eigi fyllilega rétt á sér, hefur verið farið of hratt í sakirnar, framboð af lóðum er of lítið og of fáar íbúðir. Eftirspurnin jókst mikið þegar við komum úr niðursveiflunni og það er kristaltært að lóðaskorturinn hefur þrýst fasteignaverði upp. Kosningabaráttan í sveitarfélögunum á höfuðborgarsvæðinu hlýtur að miklu leyti að snúast um að hér verði aukið framboð á lóðum og meira byggt til þess að mæta þeim skorti sem er til staðar.“

Viðskiptablaðið, 31. ágúst 2017.