Kraftmesta leiðin til að bæta lífskjör er að auka framleiðni
Formaður Hugverkaráðs SI, Tryggvi Hjaltason, er meðal höfunda greinar sem birt er í Viðskiptablaðinu undir yfirskriftinni Framleiðni ræður lífskjörum. Ásamt Tryggva skrifa undir greinina Ásta Sigríður Fjeldsted, forstjóri Festi, Helgi Rúnar Óskarsson, forstjóri 66°Norður, og Sveinn Sölvason, forstjóri Embla Medical hf (Össur hf).
Greinarhöfundar segja að skynsamlegasta og kraftmesta leiðin til að bæta lífskjör á Íslandi sé að auka framleiðni fyrirtækja og hins opinbera á Íslandi. Alltof lítil umræða hafi átt sér stað hér á landi um mikilvægi framleiðni og framleiðnivaxtar. Vert sé að rifja upp lykilskilaboð úr skýrslu McKinsey sem unnin hafi verið fyrir stjórnvöld árið 2012 um hvernig hægt væri að tryggja langtímahagvöxt á Íslandi. Markmiðið sé að skapa aukin verðmæti á hverja vinnustund og þetta sé enn stóra áskorunin.
Í niðurlagi greinarinnar segir: „Leggjum þessu lið og stöndum saman um að auka framleiðni íslenskra fyrirtækja og mætum þannig fyrrnefndum áskorunum. Lærum hvert af öðru, sækjum fram í rannsóknum og þróun, eflum samkeppnishæfni Íslands, nýtum tæknina, og aukum fræðslu um árangursríkar aðferðir. Með sókn á þessu sviði getum við vonandi forðast auknar lántökur eða skattheimtu og bætt lífskjör á Íslandi.“
Viðskiptablaðið, 20. mars 2024.