Kristinn Þórðarson, Truenorth nýr formaður SÍK
Aðalfundur SÍK, Sambands íslenskra kvikmyndaframleiðenda, var haldinn fimmtudaginn 26. maí s.l.
Á fundinum var kosinn nýr formaður Kristinn Þórðarson, framleiðandi hjá Truenorth. Kristinn tekur við af Hilmari Sigurðssyni, framkvæmdastjóra GunHill sem hefur gegnt starfi formanns í fjögur ár.
Kvikmyndaiðnaðurinn hefur átt mikilli velgengni að fagna undanfarin ár eins og fram kemur í skýrslum um hagtölur greinarinnar sem kynntar voru á starfsárinu. Skýrsla unnin af Hagfræðistofnun HÍ fyrir iðnaðarráðherra kom út um áramótin og skýrsla Capacent unnin fyrir Frísk í samstarfi við SÍK kom út í febrúar.
Báðar skýrslurnar styðja við hækkun endurgreiðsluhlutfalls í greininni en fyrir Alþingi liggja lög sem kveða á um hækkun endurgreiðslu úr 20% í 25%. Ef að líkum lætur verða þau samþykkt innan skamms sem er mikið fagnaðarefni enda eru endurgreiðslur lykilatriði í þeim löndum sem sækjast eftir því að laða til sín erlenda kvikmyndaframleiðendur.
Mennta- og menningarmálaráðuneytið hefur loksins fundið leið til að deila út fjármagni sem lagt hefur verið til hliðar á fjárlögum frá árinu 2012 þegar ákveðið var að leggja virðisaukaskatt á miðasölu kvikmynda og koma fremur til móts við íslenska kvikmyndagerð með sérstökum miðastyrkjum. Um er að ræða 105 milljónir sem bíða þess að skiptast á framleiðendur íslenskra kvikmynda. Lög þess efnis voru samþykkt í mars s.l. og var reglugerð um framkvæmdina samþykkt sama dag og aðalfundur SÍK var haldinn.
Aðalfundurinn sendi frá sér eftirfarandi ályktun:
„Aðalfundur SÍK – Sambands íslenskra kvikmyndaframleiðenda hvetur mennta- og menningarmálaráðherra til að ljúka gerð nýs samkomulags um stefnumörkun fyrir íslenska kvikmyndagerð og íslenska kvikmyndamenningu til næstu fimm ára.“
Verður þetta fyrsta verkefnið sem bíður nýrrar stjórnar.