Fréttasafn



8. maí 2018 Almennar fréttir Iðnaður og hugverk

Kúla setur nýja vöru á markað

Í Viðskiptablaðinu er sagt frá nýsköpunarfyrirtækinu Kúlu sem er meðal aðildarfélaga SI og fékk nýlega samtals 30 milljóna króna fjárfestingu frá fjórum félögum til þess að klára nýja vöru og koma henni á markað. Um er að ræða þrívíddarlinsu sem hægt er að festa á snjallsíma. Rætt er við Írisi Ólafsdóttur, framkvæmdastjóra og stofnanda Kúlu og segir hún að þetta sé þrívíddarlinsa sem byggi á speglakerfi. „Þetta eru fjórir speglar sem varpa tveimur myndum hlið við hlið inn í linsuna en svo erum við með hugbúnað sem vinnur úr þessu og býr til öll þrívíddarsniðmát.“ 

Í fréttinni kemur fram að nýja linsan fyrir farsíma hafi verið gefin út hér á landi enn sem komið er. „Hún fæst í verslunum Vodafone en við erum ekki búin að opna fyrir alþjóðlega sölu, það gerist ekki fyrr en í maí. Það eru margir að bíða eftir því að fá að geta keypt vöruna þannig að við ætlum að byrja á því að selja hana á Íslandi. Það er önnur leið en við fórum með hitt tækið sem fór beint á alþjóðlegan markað.“ 

Viðskiptablaðið, 5. maí 2018.