Fréttasafn



26. jún. 2020 Almennar fréttir Iðnaður og hugverk

Kvikmyndaframleiðendur gætu átt inni háar fjárhæðir hjá RÚV

Sigríður Mogensen, sviðsstjóri hugverkasviðs SI, segir í Fréttablaðinu engan vafa vera á því að ákvæðið í þjónustusamningi menntamálaráðuneytisins og RÚV hafi verið ætlað íslenskum kvikmyndaiðnaði og gæti iðngreinin átt inni háar fjárhæðir hjá RÚV en eitt af meginmarkmiðum samningsins er að efla sjálfstæða þátta- og kvikmyndagerð. Fréttablaðið greindi frá því vikunni að rúmlega 195 milljónir króna vanti upp á að Ríkisútvarpið ohf. uppfylli kröfur þjónustusamnings við ráðuneytið um kaup á efni frá sjálfstæðum framleiðendum þegar miðað er við skilgreiningu fjölmiðlalaga. Notist RÚV við aðra skilgreiningu á hugtakinu og telji verktakagreiðslur til einstaklinga með sem kaup af sjálfstæðum framleiðendum. „Hafa ber í huga að þarna er aðeins um að ræða eitt ár af fjögurra ára þjónustusamningi. Ef sambærilegir viðskiptahættir voru viðhafðir öll árin þá getur verið að kvikmyndagreinin eigi inni miklar fjárhæðir, hundruð milljóna króna,“ segir Sigríður 

Hún segir í fréttinni að með þjónustusamningnum sé RÚV þannig gert að taka að sér aukið hlutverk í að efla kvikmyndaiðnaðinn. Það séu því vonbrigði að sjá að ekki hafi verið staðið við þetta að fullu.  „Við teljum mikilvægt að nýr þjónustusamningur kveði skýrt á um hvað fellur undir sjálfstæða kvikmyndaframleiðslu og RÚV bæti upp það sem greinin á inni,“ segir Sigríður. 

Þá segir hún í fréttinni sjálfstæða framleiðendur standa þétt saman. „Við höfum fengið ótalmörg skilaboð frá kvikmyndaframleiðendum um framgöngu Ríkisútvarpsins á markaði. Bæði hvað meðframleiðsluhlutverk og kaup á efni varðar. Hins vegar höfum við hingað til ekki fengið ásættanleg svör við fyrirspurnum okkar um þessi mál.“ 

Fréttablaðið / Frettabladid.is, 26. júní 2020.