Fréttasafn



3. des. 2025 Almennar fréttir Iðnaður og hugverk Samband íslenskra kvikmyndaframleiðenda Starfsumhverfi

Kvikmyndaiðnaður þarf skilvirkt og fyrirsjáanlegt starfsumhverfi

Íslenskur kvikmyndaiðnaður hefur á undanförnum áratugum gengið í gegnum gríðarlegar breytingar. Samkeppnin á alþjóðavettvangi hefur harðnað til muna en um leið hafa skapast áður óþekkt tækifæri fyrir þá sem ná að byggja undir traust og fyrirsjáanlegt starfsumhverfi heima fyrir. Þetta sagði Sigurður Hannesson, framkvæmdastjóri SI, í upphafi ávarps sem hann flutti á Kvikmyndaþingi 2025 sem haldið var í Bíó Paradís í síðustu viku. Að þinginu stóðu Samband íslenskra kvikmyndaframleiðenda, Samtök kvikmyndaleikstjóra, Félag leikskálda og handritshöfunda, Félag kvikmyndagerðarmanna og Samtök iðnaðarins.

Sigurður sagði tölurnar tala skýru máli. Á árinu 2024 hafi framleiðsluvelta greinarinnar numið 36 milljörðum króna og að velta greinarinnar hafi áttfaldast frá árinu 2008. Á árunum 2020–2024 hafi útflutningstekjur numið 53 milljörðum króna eða um 38% af heildarveltu, á meðan opinber framlög á sama tíma hafi verið 17 milljarðar. Hann sagði að hver einasta króna sem hið opinbera setji í endurgreiðslur margfaldist að jafnaði 6,8 sinnum í hagkerfinu. „Ekki má gleyma áhrifunum á aðrar greinar. Kannanir Íslandsstofu sýna að 37,4% ferðamanna nefna kvikmyndir og sjónvarp sem uppsprettu hugmyndar að Íslandsferð. Það þýðir að kvikmyndir og sjónvarpsþáttaraðir eru oft fyrsti snertiflötur ferðamanns við Ísland, og með því upphaf að verðmætasköpun í ferðaþjónustu, þjónustugreinum og víðar.“

Kvikmyndaiðnaður styrkir sjálfsmynd þjóðarinnar

Þá kom fram í máli Sigurðar að rétt eins og í öðrum iðnaði snúist kvikmyndaiðnaður ekki einungis um veltu og tekjur þrátt fyrir að það spili að sjálfsögðu stórt hlutverk heldur væri einnig um að ræða sjálfsmynd þjóðar, „Fjölbreyttur iðnaður styrkir sjálfsmynd þjóðarinnar sem ekki einungis sýnir hæfni okkar á alþjóðavettvangi heldur býður einnig upp á fjölbreytt tækifæri fyrir alla landsmenn. Kvikmyndir og sjónvarpsþættir eru einn áhrifamesti menningarmiðill samtímans. Hann tryggir að íslenskar sögur, á íslensku og með skýra íslenska menningarlega skírskotun, fái að lifa, vaxa og skila sér til næstu kynslóða. Því má segja að þegar stjórnvöld fjárfesta í kvikmyndagerð erum ekki einungis verið að fjárfesta í störfum dagsins í dag, heldur er verið að fjárfesta í framtíðinni, í ímynd landsins út á við, tungumálinu og í rótum sjálfsmyndar þjóðarinnar sjálfrar.“

Óskilvirkni stjórnsýslunnar getur tafið verkefni

Sigurður sagði eina af lykilforsendum Samtaka iðnaðarins vera að hér á landi sé starfsumhverfi skilvirkt og fyrirsjáanlegt. Það gildi jafnt um byggingariðnað, hugverkaiðnað sem og kvikmyndagerð. „Fyrirtæki og fjárfestar verða að geta treyst því að reglur, styrkir og endurgreiðslur séu stöðug, skýr og framkvæmd af festu. Annars fara verkefnin einfaldlega annað eða verða ekki til. Í kvikmyndagerð getur óskilvirkni og óskýrleiki í meðferð úrlausnarefna stjórnsýslunnar þýtt heilt ár í tafir á verkefnum eða þau dagað uppi eins og við höfum séð allt of oft á undanförnum misserum.“

Styrkja Kvikmyndasjóð og festa 35% endurgreiðsluhlutfall

Jafnframt sagði Sigurður í ávarpi sínu að um leið og væntingar til greinarinnar hafi aukist á síðustu árum hafi framlög til Kvikmyndasjóðs þokast niður á við og íslenskum leiknum kvikmyndum hafi fækkað verulega. Greinin hafi þurft að takast á við sífellt erfiðara fjármögnunarumhverfi jafnt hér heima og erlendis, án þess að innlend umgjörð bæti það nægilega upp. „Þessu þarf að breyta. Við verðum að horfast í augu við þessar áskoranir en um leið að sjá skýru tækifærin. Þar vega tvö atriði sérstaklega þungt. Í fyrsta lagi þarf að styrkja Kvikmyndasjóð þannig að framleiðsla íslenskra verka standi undir þeim væntingum sem gerðar eru, bæði heima og erlendis. Í öðru lagi þarf stöðugt og skilvirkt endurgreiðslukerfi. Skilaboðin frá greininni eru skýr: festa þarf 35% endurgreiðsluhlutfall fyrir öll verkefni og tryggja að reglurnar séu einfaldar, fyrirsjáanlegar og í takt við það sem gerist í helstu samkeppnislöndum okkar. Þá þarf að skýra hlutverk og verklag endurgreiðslunefndar, stytta biðtíma og auka gagnsæi, nefndin á að vera áreiðanlegur samstarfsaðili, ekki áhættuþáttur.“

Skýr vilji til að efla samkeppnishæfni íslensks kvikmyndaiðnaðar

Í ávarpi sínu hrósaði Sigurður Loga Einarssyni, menninga-, nýsköpunar- og háskólaráðherra, fyrir hans áhuga á að efla íslenskan kvikmyndaiðnað frá því hann tók við embætti, þar sem hann hafi sýnt skýran vilja til að bæta starfsumhverfi greinarinnar og efla samkeppnishæfni íslensks kvikmyndaiðnaðar. „Ég veit það fyrir víst að ráðherra hefur lagt sig fram um að hlusta á greinina, greina áskoranir af hreinskilni og leita raunhæfra leiða til umbóta, sem eru afar mikilvæg skref á þessum tímapunkti.“ Sigurður sagði Samtök iðnaðarins, sem tali fyrir 1.700 fyrirtæki og sjálfstæða atvinnurekendur, sjá kvikmyndaiðnaðinn sem sterkan hluta íslensks iðnaðar þar sem hugvitið, tæknin, útfærslan og alþjóðlegir markaðir sameinist. „Skýr stefna stjórnvalda um öflugan Kvikmyndasjóð og stöðugt endurgreiðslukerfi mun efla greinina.“

Lokaorðum sínum beindi Sigurður til ráðherra og þingmanna og sagði að hér væri grein sem skili margföldunaráhrifum, styrki tungumál og menningu, laði að ferðamenn og skapi verðmæti fyrir allt hagkerfið. „Verkefni okkar allra er tryggja íslenskum kvikmyndaiðnaði stöðugt, skilvirkt og hagkvæmt starfsumhverfi þannig að við fáum fleiri íslenskar sögur, fleiri störf og aukna verðmætasköpun fyrir samfélagið allt.“

Sigurður Hannesson, framkvæmdastjóri SI.