Fréttasafn



18. okt. 2018 Almennar fréttir

Lækkun krónunnar endurspeglar aukna óvissu

Á bak við gengislækkun krónunnar standa breyttar væntingar til efnahagsframvindunnar og aukin óvissa þar um segir Ingólfur Bender, aðalhagfræðingur Samtaka iðnaðarins, í frétt ViðskiptaMoggans í dag. „Það tengist fyrst og fremst stöðu gjaldeyrisskapandi greina og stöðu ferðaþjónustunnar.“ Spurður að því hvenær væntingar skili sér yfir í raunhagkerfisbreytingar, segir Ingólfur að það gæti tekið einhvern tíma, ef af verður. „Menn eru að hugsa um breyttar væntingar fyrir hagvöxt á næsta ári. Að einhverju leyti eru þetta líka áhyggjur af stöðu vinnumarkaðarins, kröfugerðum og þróun í vetur. Í því ljósi eru menn að horfa á samkeppnisstöðu útflutningsatvinnugreinanna.“ 

Ingólfur ræddi einnig um gengi krónunnar í Speglinum sem var á dagskrá RÚV í gær. Í þættinum kom Ingólfur inn á að óstöðugleiki í starfsskilyrðum fyrirtækja sem birtast í gengi krónunnar sé vandamál sem komi niður á framleiðni, veltu og verðmætasköpun. 

Á vef RÚV er hægt að hlusta á Spegilinn, rætt er við Ingólf frá 10. mínútu.