Fréttasafn



18. maí 2020 Almennar fréttir Starfsumhverfi

Lækkun stýrivaxta er eitt af stórum tækjunum

„Meginatriðið er að auka eftirspurn í landinu, meðal annars með því að örva fjárfestingu fyrirtækja og heimila og skapa þannig störf. Það er ekki síst það sem er mikilvægt núna því að atvinnuleysi er mjög hátt,“ segir Ingólfur Bender, aðalhagfræðingur Samtaka iðnaðarins, í samtali við Fréttablaðið sem birt er á vef blaðsins. Hann segir að Seðlabankinn hafi allar forsendur til að lækka stýrivexti og segist hann eiga von á lækkun. Það sé þó spurning hvort bankinn ráðist í 25 eða 50 punkta lækkun.

Í frétt Fréttablaðsins segir að í nýrri greiningu frá Samtökum iðnaðarins komi fram að Seðlabanki Íslands þurfi að lækka stýrivexti um að minnsta kosti 0,5 prósentustig. Hagvaxtarhorfur hafa versnað mjög á skömmum tíma og útlit sé fyrir mesta samdrátt í íslensku efnahagslífi á þessu ári sem um getur frá stofnun lýðveldisins en næsta vaxtaákvörðun Seðlabankans verði kynnt á miðvikudag, en stýrivextir séu nú 1,75% og hafa aldrei verið lægri. Þá segir að það sem ætti að gefa Seðlabankanum svigrúm til lækkunar vaxta sé sú staðreynd að verðbólga og verðbólguvæntingar hafa haldist við 2,5% markmið bankans. Telja Samtök iðnaðarins að stýrivaxtalækkun gæti dregið úr dýpt efnahagslægðarinnar og hjálpað fyrirtækjum og heimilum að takast á við þær erfiðu aðstæður sem nú eru.

Ingólfur segir í fréttinni að Seðlabankinn hafi verið þögull hvað varðar stýrivexti síðan í mars síðastliðnum, en mikið vatn hafi runnið til sjávar síðan þá. Hagkerfið sé að sigla niður í mjög djúpa efnahagslægð „Lækkun stýrivaxta eru eitt af stóru tækjunum til að takast á við það ásamt ríkisfjármálunum. Með lækkun stýrivaxta má skaffa fyrirtækjum og heimilum fjármagn á betri vaxtarkjörum heldur en áður.“

Frettabladid.is, 18. maí 2020.