Fréttasafn10. feb. 2020 Almennar fréttir Efnahagsmál Starfsumhverfi

Landsframleiðsla á mann dregst mikið saman

Í nýrri greiningu SI, Snúum samdrætti í vöxt, kemur fram að landsframleiðsla á mann sem er mælikvarði á efnahagsleg lífskjör íbúa landsins dróst saman um 1,5% á síðasta ári eftir samfelldan átta ára vöxt. Flest bendir til þess að sú þróun haldi áfram í ár en m.v. nýja þjóðhagsspá Seðlabankans og fólksfjöldaspá Hagstofunnar mun landsframleiðsla á mann dragast saman um 1,1% í ár.

Í greiningunni segir að litið til síðustu áratuga sé fátítt að landsframleiðsla á mann dragist eins mikið saman. Ef litið sé til síðustu 30 ára séu tímabilin einungis tvö. Annars vegar á árum fjármálakreppunnar 2008 og hins vegar í efnahagssamdrættinum í byrjun tíunda áratugar síðustu aldar þegar saman fór aflasamdráttur og viðskiptakjararýrnun.

Verg-landsframleidsla-a-mann

 

Samdráttur í gjaldeyristekjum einn sá mesti í 30 ár

Orsök niðursveiflunnar nú er samdráttur í gjaldeyristekjum sem er einn sá mesti í þrjá áratugi. Samdráttur í flugframboði, loðnubrestur, minni álframleiðsla og kórónaveira eru allt þættir sem dregið hafa úr gjaldeyrissköpun hagkerfisins. Áhrif minni gjaldeyristekna hafa verið að breiðast um hagkerfið og sjást áhrifin m.a. í umtalsverðum samdrætti í fjárfestingum atvinnuveganna. Fyrirtæki hafa brugðist við með hagræðingu en launþegum fækkar nú í öllum helstu greinum iðnaðar og í viðskiptahagkerfinu almennt. Þetta hefur leitt til þess að atvinnuleysi hefur aukist og var það komið í 4,3% í desember síðastliðnum sem er eitt það mesta sem sést hefur hér á landi.

Mikill skellur á vinnumarkaði

Skellurinn er mikill á vinnumarkaði en atvinnuleysi mælist nú 4,3% m.v. skráningar á vinnumiðlunum. Samtals eru nú ríflega 8 þúsund manns á atvinnuleysisskrá. Í ljósi sögunnar er þetta mikið atvinnuleysi. Spáir Seðlabankinn því að atvinnuleysi verði að jafnaði 4,2% í ár og viðlíka á næsta ári eða 4,1%. Má segja að einungis á tveim tímabilum á síðustu 60 árum hafi atvinnuleysi verið þetta hátt, þ.e. eftir fjármálaáfallið 2008 og síðan í efnahagssamdrættinum í upphafi tíunda áratugar síðustu aldar.  

Atvinnuleysi_1581276938168

 

Í fyrsta sinn sem gjaldeyristekjur dragast saman síðan 2006

Í greiningunni kemur fram að íslenska hagkerfið sé mjög háð erlendum viðskiptum og að skellurinn á síðastliðnu ári sem hagkerfið varð fyrir í samdrætti gjaldeyristekna hafi verið stór en áætlað er að þær hafi dregist saman um nær 6% á árinu. Gjaldeyristekjur eru lífæð okkar hagkerfis og því er alvarleiki þessa skells mikill fyrir íslenskan þjóðarhag. Þetta er í fyrsta sinn sem gjaldeyristekjur dragast saman síðan 2006. Síðustu 30 ár hafa gjaldeyristekjur einungis dregist saman í þrjú ár, þ.e. árið 2006 og síðan 1991-1992.

Áleitin spurning er hvaðan á viðsnúningurinn í gjaldeyristekjum sem knýja mun næstu efnahagsuppsveiflu að koma. Laun eru há hér á landi í erlendum samanburði en laun á vinnustund mælt í erlendri mynt er meðal þess hæsta sem gerist meðal iðnvæddra ríkja. Útlit er fyrir að í ár muni laun hækka hér á landi nokkuð umfram laun í helstu viðskiptalöndunum líkt og á síðasta ár. 

Utflutningur-voru-og-thjonustu-mangbreytingar

Þá segir í greiningunni að í skýrslu um atvinnustefnu sem Samtök iðnaðarins birtu undri lok árs 2018 komi fram að til þess að standa undir viðunandi hagvexti hér á landi þurfi útflutningstekjur að verða um 1.500 mö.kr. meiri árið 2050 en þær voru það ár. Aukningin nemi um einum milljarði króna á viku og gefi hugmynd um umfang þess verkefnis sem við blasir. Ljóst sé að ekki verður af þessum vexti nema með öflugri samkeppnishæfni atvinnuveganna. 

Hér er hægt að lesa greininguna í heild sinni.