Fréttasafn6. feb. 2020 Almennar fréttir Hugverk

Landssamtök líftækniiðnaðar í Svíþjóð funda með SLH

Fulltrúar frá SwedenBIO sem eru landssamtök líftækniiðnaðar í Svíþjóð funduðu í gær með stjórnarmönnum í Samtökum fyrirtækja í líf- og heilbrigðistækni, SLH, ásamt starfsmönnum hugverkasviðs SI og fulltrúa Íslandsstofu. SwedenBIO vinnur að því að efla líftækniiðnaðinn í Svíþjóð og á Norðurlöndunum en yfir 250 líftæknifyrirtæki eiga aðild að samtökunum. Sænsku fulltrúarnir eru staddir hér á landi til þess að kynna sér íslensk fyrirtæki í líf- og heilbrigðistækniiðnaði, skoða möguleika á samstarfi og kynna fyrirhugaða ráðstefnu á árinu um líftækniiðnað.

Á fundinum kynntu fyrirtækin Kerecis, Össur og Zymetech starfsemi sína og sköpuðust meðal annars umræður um nýtingu fiskiafurða í líf- og heilbrigðistækni. Þá fóru fram umræður um styrki til nýsköpunarfyrirtækja á Íslandi og starfsumhverfið hér á landi og í Svíþjóð.

Á myndinni hér fyrir ofan eru, talið frá vinstri, Nanna Elísa Jakobsdóttir, viðskiptastjóri á hugverkasviði SI, Kim De Roy, Reynir Scheving og Guðmundur Fertram Sigurjónsson, stjórnarmenn í Samtökum fyrirtækja í líf- og heilbrigðistækni, Sigríður Mogensen, sviðsstjóri hugverkasviðs SI og Erna Björnsdóttir, Íslandsstofu, ásamt fulltrúum frá SwedenBIO.