Fréttasafn



27. feb. 2023 Almennar fréttir

Langtímahagsmunir að innrás í Úkraínu verði hrundið

Sigríður Mogensen, sviðsstjóri iðnaðar- og hugverkasviðs SI, var einn af viðmælendum Höskuldar Kára Schram í Vikulokunum á RÚV síðastliðinn laugardag. Þar ræddi hann við Sigríði, Jóhannes Þór Skúlason, framkvæmdastjóra Samtaka ferðaþjónustunnar, og Magnús Árna Skjöld Magnússon, varaþingmann Samfylkingarinnar, um Úkraínu, kjaradeilu Eflingar og Samtaka atvinnulífsins, húsnæðismarkaðinn og Eurovision. 

Þegar Sigríður er spurð hvort Vesturlönd hafi sofið á verðinum gagnvart Rússum segir hún svo vera t.d. út frá orkumálum. „Ég held að það hefði verið hægt að grípa til miklu stífari og róttækari viðskiptaþvingana ef ekki væri fyrir stöðu Rússlands á gasmarkaði og hvað orkumálin varðar. Þar sváfu mörg Evrópuríkin klárlega á verðinum. Við erum í skjóli sem betur fer hvað það varðar.“

Hún segir erfitt að tjá sig um stríðið því það séu svo miklar hörmungar. „Ég man bara þegar maður vaknaði upp á þessum degi fyrir rúmlega ári síðan að maður trúði varla að þetta væri að gerast og nú er þetta bara orðið daglegt brauð, stríðið í Úkraínu. Börnin okkar þekkja þetta. Þetta breytir ákveðinn heimsmynd hjá okkar kynslóð aftur. Langt síðan hafa verið friðartímar svo lengi.“

Sigríður sagðist vilja hrósa utanríkisráðherra Þórdísi Kolbrún hvernig hún hafi talað skýrt þegar öllu er á botnin hvolft. „Hvort sem það snýr að mannúðarsjónarmiðum og við viljum alltaf taka stöðu með lýðræðinu. En þá eru það líka langtímahagsmunir allrar Evrópu að þessari innrás verði hrundið og Úkraínska þjóðin standi uppi sem óskoraðir sigurvegarar í þessu. Það snýr líka að okkar langtímahagsmunum, út frá viðskiptasjónarmiðum og öllu fyrir utan lýðræðissjónarmiðin, mannúðina og mannréttindi, allt sem við viljum standa vörð um. Íslensk stjórnvöld hafa að mínu mati farið alveg rétt að þessu máli.“

Á vef RÚV er hægt að hlusta á þáttinn í heild sinni.

RÚV, 25. febrúar 2023.