Fréttasafn10. nóv. 2020 Almennar fréttir Mannvirki

Langvarandi atvinnuleysi er áhyggjuefni

„Langvarandi atvinnuleysi getur haft mikil sálræn og félagsleg áhrif sem ekki má gera lítið úr. Þetta er áhyggjuefni nú þegar við erum að fara inn í veturinn, myrkrið er að færast yfir og æ fleiri eru að missa lifibrauð sitt. Það verður að passa upp á þetta fólk,” segir Sigurður Ragnarsson, forstjóri ÍAV og varaformaður SI, í viðtali á vefsíðunni Höldum áfram. Hann tekur fram að hann sé almennt sáttur við þær aðgerðir sem stjórnvöld hafa þegar gripið til í tengslum við heimsfaraldurinn. „Fyrst hertum við tökin í upphafi faraldursins með góðum árangri og svo aftur þegar faraldurinn fór að bæra á sér síðsumars og í haust. Mér finnst yfirvöld hafa gengið langt í aðgerðum núna miðað við alvarleika veirunnar sem þarf að setja í samhengi við t.d fjölda dauðsfalla ár hvert af völdum hefðbundinnar inflúensu. Þau félagslegu áhrif sem af þessum aðgerðum hljótast eru svo mikil. Það verður allt annað en einfalt verkefni að vinda ofan af því þótt að við förum að sjá til sólar í efnahagslegu tilliti.” 

Sigurður segir að hann hafi samt skilning á því sjónarmiði að menn séu að reyna að verja okkur innanfrá, passa að skólakerfið geti haldið eðlilegum takti og að heilbrigðiskerfið virki eins og skildi. „Engu að síður er það skoðun mín að það hafi verið býsna langt gengið undanfarnar vikur. Þær atvinnuleysistölur sem blasa við okkur eru skýrasta dæmi þess. Og ég endurtek, það má ekki vanmeta þau áhrif sem atvinnuleysi hefur á sálarlíf fólks og þarf að taka inn í jöfnuna þegar heildaráhrifin eru metin.”

Þeir sem eru aflögufærir kaupi innlendar vörur og þjónustu

Sigurður segir í viðtalinu mikilvægt að þeir Íslendingar sem séu aflögufærir séu virkir neytendur. „Við erum ekki að fara til útlanda núna og eyða peningum. Þeir sem geta og eru aflögufærir eiga að gera það og kaupa innlendar vörur og þjónustu og styðja við íslenska framleiðslu og ekki síst ferðast um Ísland. Fleiri Íslendingar ferðuðust um Ísland í sumar og held ég að það muni skila sér í fleiri innlendum ferðamönnum þegar fram líða stundir. Við verðum að spýta peningum inn í íslenska hagkerfið á meðan við heyjum þessa varnarbaráttu við veiruna. Þannig sköpum við störf og verðmæti og hjálpumst að í því að halda íslenska hagkerfinu gangandi.”

Njótum öll góðs af innviðauppbyggingu

Í viðtalinu kemur fram að Sigurður er ánægður með þá ákvörðun stjórnvalda að setja aukna fjármuni inn í innviðauppbyggingu sem viðbragð við faraldrinum. „Og það var engin vanþörf á, uppbyggingu í orkukerfinu eða í vegakerfinu. Við munum öll njóta góðs af því auk þess sem hið opinbera er að virka til sveiflujöfnunar eins og vera ber, en það hefur ekki alltaf tekist sem skyldi í gegnum áratugina.”

Hér er hægt að lesa viðtalið við Sigurð í heild sinni.

Myndir: Birgir Ísleifur Gunnarsson.

Iav_website-3Sigurður Ragnarsson, forstjóri ÍAV.