Fréttasafn



19. mar. 2018 Almennar fréttir

Laun, skattar og vextir í hærri kantinum hér á landi

Á vef RÚV er vitnað til orða Sigurðar Hannessonar, framkvæmdastjóra SI, í Morgunútgáfunni á Rás 1 í morgun þar sem hann sagði að laun, skattar og vextir séu í hærri kantinum hér á landi í alþjóðlegum samanburði. Auk þess er vitnað til þess sem Sigurðir sagði um að raforkuverð skapi ekki lengur það samkeppnisforskot sem það gerði áður. Mikilvægt sé að stjórnvöld móti atvinnustefnu, efli samkeppnishæfni Íslands og geri þannig landið að eftirsóttum stað til atvinnureksturs og búsetu.

Í fréttinni er sagt frá því að hann hafi bent meðal annars á að fyrirtæki hafi þurft að grípa til þess ráðs að segja upp fólki, og nefndi sem nýleg dæmi Ölgerðina og Odda, það sé hinn kaldi veruleiki sem íslenskur iðnaður standi frammi fyrir.

„Við sjáum það líka, varðandi hagkvæmni, að laun hér eru há í alþjóðlegum samanburði. Og framleiðnin er ekki í takti við það, sem þýðir að það er ekki verið að framleiða fyrir eins mikið og launin gefa til kynna. Fyrirtæki eru auðvitað í samkeppni við innfluttar vörur, þau sem starfa hér á landi, eða þau sem eru í útflutningi, það er að segja að þau sem eru að flytja út eru þá í samkeppni við vörur í þeim löndum. Og ef laun, sem eru oft stór kostnaðarliður, eru lægri annars staðar hlýtur það að hafa áhrif á okkar stöðu.“ 

Á vef RÚV er hægt að lesa fréttina í heild sinni.

Hér er hægt að hlusta á Morgunútgáfuna á Rás 1.