Fréttasafn12. maí 2017 Almennar fréttir

Launþegum fjölgar mest í byggingariðnaði

Launþegum fjölgar mest í byggingariðnaði og ferðaþjónustu en hefur fækkað í sjávarútvegi samkvæmt mælingu Hagstofunnar. Á 12 mánaða tímabili, frá apríl 2016 til mars 2017, voru að jafnaði 16.970 launagreiðendur á Íslandi og hafði þeim fjölgað um 754 eða um 4,7% frá síðustu 12 mánuðum á undan. Á sama tímabili greiddu launagreiðendur að meðaltali um 181.900 einstaklingum laun sem er aukning um 8.300 eða 4,8% samanborið við 12 mánaða tímabil ári fyrr.

Í mars voru 2.368 launagreiðendur og um 10.900 launþegar í byggingarstarfsemi og mannvirkjagerð og hafði launþegum fjölgað um 1.200 eða um 13% samanborið við mars 2016. Sömuleiðis voru í mars 1.547 launagreiðendur og um 24.000 launþegar í einkennandi greinum  ferðaþjónustu og hafði launþegum fjölgað um 2.800 eða um 13% á einu ári. Launþegum hefur á sama tíma fjölgað um 5.900 eða um 3%.