Fréttasafn



29. apr. 2021 Almennar fréttir Innviðir Mannvirki

Lausnin að auka framboð íbúða en ekki stíga á bremsuna

Forsíðuefni nýjasta tölublaðs Viðskiptablaðsins er staðan á íbúðamarkaðinum þar sem sjónarmið eru mismunandi. Í blaðinu kemur fram að mikil þensla sé á fasteignamarkaði og markaðurinn muni vart ná jafnvægi á næstu árum. Samtök iðnaðarins hafi áhyggjur af því hve fáar íbúðir séu í byggingu en greiningardeildir bankanna segja að varast beri að gera of mikið úr vandanum.

Rætt er við Ingólf Bender, aðalhagfræðing SI, sem segir að eftirspurnarhliðin hafi verið sterk vegna vaxtalækkana og vaxandi kaupmáttar ráðstöfunartekna heimilanna. Þessu til viðbótar hafi ýmis stuðningsúrræði stjórnvalda á borð við úttekt séreignarsparnaðar til húsnæðiskaupa stutt við eftirspurnarhlið markaðarins í faraldrinum og fólki hafi farið fjölgandi hér á landi undanfarið þrátt fyrir niðursveifluna en á sama tíma hafi framboð á íbúðum dregist saman. „Við sjáum það í talningu okkar að íbúðum í byggingu hefur fækkað talsvert og sérstaklega íbúðum á fyrstu byggingarstigum. Færri íbúðir eru fullbúnar á leiðinni á markaðinn á næstunni að okkar mati af þessum ástæðum. Á fasteignamarkaðnum fer því nú saman minnkandi framboð og vaxandi eftirspurn sem þýðir að verðið er að hækka tiltölulega hratt.“ 

Í fréttinni segir að íbúðum í byggingu fækki um 20% á milli ára og 29% frá því fyrir tveimur árum samkvæmt talningu Samtaka iðnaðarins. Íbúðum í byggingu á fyrstu byggingarstigum hafi fækkað um helming á undanförnum tveimur árum.

Flöskuhálsinn fyrst og fremst lóðaskortur

Í Viðskiptablaðinu kemur fram Ingólfur telji lausnina vera að auka framboðið fremur en að stíga á bremsuna á eftirspurnarhliðinni með aðgerðum á borð við hækkun stýrivaxta eða hærri eiginfjárkröfum banka vegna húsnæðislána. „Við erum að glíma við mikið atvinnuleysi og viljum skapa störf og þau verða meðal annars til í byggingageiranum. Verktakar innan okkar raða hafa bent á að flöskuhálsinn sé fyrst og fremst lóðaskortur, sérstaklega í ákveðnum sveitarfélögum.“ Fram kemur að flókið eftirlitskerfi og mikið regluverk hægi einnig á uppbyggingunni. Fækkun íbúða í byggingu, sér í lagi á fyrstu stigum framkvæmda geti leitt af sér töluverðan vanda síðar meir en það taki um tvö ár að jafnaði að byggja hús. „Það hefur verið baráttumál hjá okkur að tryggja jafna uppbyggingu íbúða hér á landi. Núna þurfum við að gæta að því að lenda ekki í því að það verði skortur á fullbúnum íbúðum þegar hagkerfið tekur af stað eins og við höfum svo oft lent í gegnum tíðina þegar við höfum verið á þeim stað í hagsveiflunni.“

Viðskiptablaðið, 29. apríl 2021.

Vidskiptabladid-29-04-2021-3-