Lausnin er að byggja í takt við þörf
Rætt er við Sigurð Hannesson, framkvæmdastjóra SI, í Bítinu á Bylgjunni um íbúðamarkaðinn þar sem hann segir meðal annars að það sé búið að setja ákveðnar hömlur á og fara í aðgerðir sem hafi áhrif á markaðinn núna, t.d. lánareglur sem geri ungu fólki erfitt fyrir að komast inn á markaðinn í fyrstu kaupum. „Meðan þessar hömlur eru þyrfti að nýta tímann til að byggja. Vandinn er sá að við erum með ójafnvægi í dag vegna þess að of lítið hefur verið byggt á síðustu 10-15 árum. Lækningin er mjög einföld og hún er sú að byggja nóg. Vandinn er sá að það tekur ca tvö ár að framkvæma og byggja íbúðir. Þannig að það sem við erum að sjá í dag mun birtast okkur eftir 2-3 ár. Þannig að ef ekkert verður að gert og þessi mál þróast með þessum hætti þá verðum við í þeirri stöðu eftir 2-3 ár að hagkerfið verður vonandi farið að rétta úr kútnum, verðbólgan komin niður og vextir. Eftirspurnin eykst en þá eru ekki til íbúðir. Það þýðir bara eitt, verðið hækkar aftur, aukin verðbólga, vextir verða háir og ójafnvægið heldur áfram.“
Sigurður segir að íbúðir séu að seljast en það taki lengri tíma og það letji áhuga á uppbyggingu. „Við þessar aðstæður þarf ákveðna hvata til að byggja fyrir ákveðna hópa sem snúa til dæmis að hagkvæmu húsnæði. Við þekkjum eins og hlutdeildarlánin. Það gerir það af verkum að það er þá hvati til að byggja upp í það sem vantar. Það eru ýmis úrræði sem þarf að horfa til.“
Sigurður segir það jákvætt að innviðaráðherra hafi lýst því yfir að það eigi að byggja 35 þúsund íbúðir á næsta áratug og það sé búið að gera samkomulag við Reykjavíkurborg um þeirra þátt í uppbyggingunni. „Auðvitað vildum við að slíkir samningar verði gerðir við fleiri sveitarfélög og að fleiri komi inn í. Það snýr þá að einföldun leyfisveitinga, lóðaframboði og þeim þáttum sem sannarlega hafa verið flöskuháls hingað til.“
Sigurður segir að nú sé heildarendurskoðun á byggingareglugerðinni nýfarin af stað til einföldunar. „Það er mjög gott. Hluti af samkomulagi Reykjavíkurborgar við ríkið er að einfalda þeirra ferla. Ég veit að þau eru farin af stað í þau verkefni.“ Hann segir að verktakaranir vilji fara af stað en það séu þættir sem letji til uppbyggingar og nefnir sem dæmi að fjármagn sé í boði en vandinn sé að það sé dýrt því vextir séu svo háir.
Sigurður segir að lausnin sé alltaf sú sama. „Að byggja í takt við þörf. Það hefur því miður ekki verið gert.“
Hér er hægt að hlusta á viðtalið við Sigurð í heild sinni frá 1:05:20
Bylgjan, 24. apríl 2023.