Fréttasafn28. jún. 2021 Almennar fréttir Orka og umhverfi

Lausnir við loftslagsvanda verða til í atvinnulífinu

Rætt er við Sigurð Hannesson, framkvæmdastjóra SI, í kvöldfréttum RÚV um nýjan Loftslagsvísi atvinnulífsins sem Grænvangur í samstarfi við sjö atvinnugreinafélög standa að. Í fréttinni kemur fram að forráðamenn segja vegvísinn staðfestingu á einörðum vilja atvinnulífsins til að taka þátt í baráttunni við loftslagsvána í samstarfi við stjórnvöld. Með vegvísinum sé ábyrgð atvinnulífsins á lausn loftslagsvandans undirstrikuð. Lausnirnar felist fyrst og fremst í orkuskiptum og nýsköpun og síðast en ekki síst samstöðu um að ná settum markmiðum í tæka tíð. Sigurður segir þessar lausnir verða til í atvinnulífinu. Þetta sé samvinnuverkefni stjórnvalda og atvinnulífs. Hlutverk stjórnvalda sé að ryðja hindrunum úr vegi og hvetja til fjárfestinga þannig að fyrirtækin geti ráðist í þær og flýtt árangri. Hann segir að allir atvinnurekendur sem  talað hefur verið við séu með hugann við þetta málefni. Þannig að það séu allir að máta sig við þetta og hugsa hver fyrir sig hvað þau geti gert í sínum rekstri til þess að draga úr losun og ná þessum markmiðum. 

Loftslagsmál orðin hluti af stefnumótun í öllum málaflokkum

Í frétt RÚV er einnig rætt við Katrínu Jakobsdóttur, forsætisráðherra, sem segir að búið sé að lögfesta markmið um kolefnishlutleysi ekki seinna en 2040. Hún segir aukningu í fjárveitingum og að loftslagsmálin séu orðin hluti af stefnumótun í öllum málaflokkum. Hún segir að þannig munum við ná árangri en verkefninu sé ekki lokið og það verði að halda áfram á næsta kjörtímabili af sama krafti.

RÚV, 23. júní 2021. 

RUV-24-06-2021-2-