Fréttasafn



5. nóv. 2018 Almennar fréttir

Lava Centre fær viðurkenningu fyrir bestu fjárfestingu í hönnun

Lava Centre á Hvolsvelli hlaut viðurkenningu fyrir Bestu fjárfestingu í hönnun 2018. Verðlaunin voru afhent á Kjarvalsstöðum síðastliðinn föstudag og var það Sigurður Hannesson, framkvæmdastjóri Samtaka iðnaðarins, sem veitti Bárði Erni Gunnarssyni, aðaleiganda Lava Centre, viðurkenninguna. Viðurkenning fyrir Bestu fjárfestingu í hönnun er veitt fyrirtæki sem hefur haft hönnun og arkitektúr að leiðarljósi alla tíð í þeim tilgangi að auka verðmætasköpun og samkeppnishæfni. Fyrir Lava Centre voru ráðnir hönnuðir á sviði margmiðlunar hjá fyrirtækinu Gagarín sem unnu hana í nánu samstarfi við Basalt arkitekta sem einnig hönnuðu bygginguna sem hýsir sýninguna. Þess má geta að bæði Gagarín og Basalt arkitektar eru aðilar að Samtökum iðnaðarins. 

Umsögn dómnefndar um Lava Center: „Lava Centre er dæmi um fjárfestingu í ferðaþjónustu sem framkvæmd er af stórhug og fagmennsku. Lava centre nýtir aðferðafræði hönnunar til að útskýra á grípandi hátt sum þeirra margbrotnu og stórfenglegu náttúruafla sem hafa mótað jörðina og hófu myndun Íslands fyrir tugmilljónum ára. Unnið var með færustu hönnuðum á sviði margmiðlunar hjá fyrirtækinu Gagarín og Basalt arkitektar hönnuðu bygginguna sem hýsir sýninguna. Útkoman er skýrt dæmi um þá verðmætasköpun sem góð hönnun felur í sér.“

Honnunarverdlaun_november-2018-1-Sigurður Hannesson, framkvæmdastjóri SI, afhenti verðlaunin fyrir Bestu fjárfestingu í hönnun 2018.

Hönnunarverðlaunin til Basalt arkitekta

Hönnunarverðlaun Íslands fóru til Basalt arkitekta  fyrir arkitektúr í íslenskri baðmenningu, en þeir hafa lagt ríkulega til þróunar baðstaða og baðmenningar á Íslandi. Nýjustu dæmin eru The Retreat við Bláa lónið í samstarfi við Design Group Italia og GeoSea sjóböðin á Húsavík. Það var forsætisráðherra Íslands, Katrín Jakobsdóttir, sem afhenti verðlaunin. Þess má geta að Basalt arkitektar eru félagsmenn í SAMARK og aðilar að Samtökum iðnaðarins. 

Umsögn dómnefndar um Basalt arkitekta: „Basalt arkitektar hafa einstakt lag á að tvinna mannvirki saman við náttúruna og hafa sýnt gott fordæmi þegar kemur að hönnun baðstaða. Byggingarlistin er í hæsta gæðaflokki þar sem hvert smáatriði er úthugsað og rými eru hönnuð af virðingu og látleysi. Arkitektúrinn skapar ramma fyrir einstaka upplifun gesta í stórbrotinni náttúru landsins.“


Honnunarverdlaun_november-2018-3-

Marcos Zotes, Sigríður Sigþórsdóttir og Hrólfur Karl Cela eigendur Basalt arkitekta og handhafar Hönnunarverðlauna Íslands 2018 ásamt Katrínu Jakobsdóttur, forsætisráðherra.

Myndir: Sunday & White Photography 

Hönnunarmiðstöð Íslands stendur að Hönnunarverðlaunum Íslands í samstarfi við Hönnunarsafn Íslands, Listaháskóla Íslands, Samtök iðnaðarins, Landsvirkjun og Íslandsstofu.

Einkenni Hönnunarverðlaunanna er hannað af Elsu Jónsdóttur og Birni Loka í stúdíó Krot og Krass í samvinnu við Kristínu Maríu Sigþórsdóttur

Nánar um verðlaunin á vef Hönnunarmiðstöðvar

Fleiri myndir er hægt að skoða á Facebook síðu Hönnunarverðlauna Íslands