Fréttasafn



12. des. 2016 Almennar fréttir Iðnaður og hugverk

Leitað eftir tilnefningum fyrir upplýsingatækniverðlaun Ský

Opið er fyrir tilnefningar í upplýsingatækniverðlaun Ský til 13. janúar en um er að ræða heiðursverðlaun fyrir framúrskarandi framlag til upplýsingatækni á Íslandi. Verðlaunin sem hafa verið veitt af Ský frá árinu 2010 verða afhent á UTmessunni í Hörpu 3. febrúar. Hægt er að tilnefna einstakling, fyrirtæki eða verkefni sem hefur skarað framúr á sviði upplýsingatækni, skapað verðmæti og auðgað líf Íslendinga með hagnýtingu á upplýsingatækni. Áhersla er lögð á að framlagið hafi þegar sannað sig með afgerandi hætti.

Tilnefningar á að senda á netfangið sky@sky.is með eftirtöldum upplýsingum:

  1. Tilgreindu þann aðila sem þú telur að hafi skarað framúr á sviði upplýsingatækni og uppfyllir skilyrði tilnefninga.
  2. Lýstu af hverju þú tilnefnir viðkomandi (hvert er afrekið) og hvernig hefur það sannað sig með afgerandi hætti. Mundu eftir að rökstyðja vel svo valnefndin eigi auðvelt með að taka afstöðu.
  3. Nafn og tölvupóstfang þitt.

Að fresti loknum velur valnefnd þann aðila sem þykir skara framúr en stjórn Ský skipar valnefndina. Í valnefndinni eru tveir síðustu verðlaunahafar, fulltrúar frá samtökum upplýsingatæknifyrirtækja, fulltrúi háskóla, fulltrúi styrktaraðila, fulltrúi stjórnar Ský ásamt starfandi framkvæmdastjóra Ský.

Fyrri verðlaunahafar eru: Skúli Eggert Þórðarson og embætti ríkisskattstjóra, Hjálmar Gíslason, Rakel Sölvadóttir, Hilmar Veigar Pétursson, Maríus Ólafsson, Reiknistofa bankanna og Friðrik Skúlason.

Nánar á vef Ský.