Fréttasafn



10. nóv. 2017 Almennar fréttir Iðnaður og hugverk

Leyfa á fleirum að njóta íslenskrar hönnunar og framleiðslu

Sigurður Hannesson, framkvæmdastjóri SI, tók þátt í pallborðsumræðum á málþingi um hönnun í ferðaþjónustu sem fram fór í Iðnó í gær í tengslum við Hönnunarverðlaun Íslands. Auk Sigurðar voru í pallborðinu Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir, ferðamála-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra, Helga Árnadóttir, framkvæmdastjóri Samtaka ferðaþjónustunnar, Óskar Jósefsson, framkvæmdastjóri Stjórnstöðvar ferðamála, Ragna Árnadóttir, aðstoðarforstjóri Landsvirkjunar, og Grímur Sæmundsen, forstjóri Bláa lónsins. Umræðunum stýrði Þórey Vilhjálmsdóttir hjá Capacent.

Í máli Sigurðar kom meðal annars fram að við værum heppin að eiga hér á landi góða hönnuði og fyrirtæki sem sinntu hönnun og framleiðslu hennar. Hann sagði frá því áhugamáli sínu að leyfa fleirum að njóta íslenskrar hönnunar og vísaði í því sambandi til útflutnings á framleiðslu, hugviti og hönnun. Hann nefndi að angi af þessu væri hugmynd um að á Bessastöðum væru íslensk húsgögn enda sækja fjölmargir gestir forsetann heim ár hvert. Þá þakkaði hann iðnaðarráðherra fyrir að taka jákvætt í ósk um formlega aðkomu samtakanna og þar með atvinnulífsins að vinnu við endurskoðun á hönnunarstefnu en sú vinna stendur nú yfir.

Tækifæri til að skapa aukið virði

Sigurður minnti á að fjölmörg fyrirtæki á sviði hönnunar væru félagsmenn hjá SI sem og fyrirtæki sem gera hugmyndir hönnuða að veruleika líkt og í mannvirkjagerð, húsgagna- og innréttingasmíði, járnsmíði og hugbúnaðargerð svo dæmi séu tekin. Hugvit verður drifkraftur vaxtar á 21. öldinni líkt og hagkvæm nýting náttúruauðlinda var drifkraftur vaxtar á 20. öldinni. Hönnun byggir á hugviti og í hönnun geti falist einstök tækifæri til þess að skapa aukið virði.

Það sést glöggt hjá nágrannaþjóðum eins og Dönum hversu vel þeim hefur tekist til í að koma sinni hönnun og framleiðslu á framfæri. Þeir láta ekkert tækifæri framhjá sér fara við að koma danskri hönnun og dönskum vörum að, hvort sem litið er til opinberra bygginga, veitingastaða, verslana, kvikmynda eða sjónvarpsþátta því passað er upp á sýnileika þeirra hönnunar. Íslendingar eiga að taka Skandinava sér til fyrirmyndar og vinna markvisst að því að gera íslenska hönnun og framleiðslu sýnilegri meðal ferðamanna. Það þarf að skapa skýra stefnu svo allir helstu hagsmunaaðilar verði samstíga í þeirri vegferð að gera íslenskri hönnun og framleiðslu hátt undir höfði.

Ljósmyndir: Rut Sigurðardóttir.

Malthing-um-honnunSH