Fréttasafn



30. nóv. 2022 Almennar fréttir Starfsumhverfi

Lífeyrissjóðir leiki stærra hlutverk við fjármögnun framkvæmda

Blikur á lofti er yfirskrift greinar Ingólfs Bender, aðalhagfræðings SI, sem birt er í ViðskiptaMogganum. Þar segir Ingólfur að fjárhagsleg skilyrði bankanna ráði miklu um vöxt fjárfestinga og efnahagslífsins í heild. Vegna versnandi efnahagsútlits, hækkun stýrivaxta og aukinnar óvissu hafi fjármögnunarkostnaður aukist og áhættuálag á útlán hækkað í mörgum af helstu viðskiptalöndunum. Hætta sé á að þetta ástand komi illa niður á fjárfestingum og vexti íslenskra fyrirtækja og í leiðinni íslenska hagkerfinu. Við þessu þurfi að bregðast og ættu lífeyrissjóðir landsins að leika stærra hlutverk við fjármögnun framkvæmda og atvinnulífs. Ingólfur segir mikilvægt að stjórnvöld bregðist við vísbendingum um þá vá sem fyrir dyrum sé í efnahagshorfum. Með réttum aðgerðum megi efla framboðshlið hagkerfisins og ná hvoru tveggja, að tryggja stöðugleika og hagvöxt.

Hagvöxtur fari úr 6% í 2% á næsta ári

Ingólfur segir að Ísland sé ekki eyland í efnahagsmálum. Þó vöxtur íslenska hagkerfisins hafi verið öllu hraðari en í helstu viðskiptalöndunum er hér, líkt og þar, reiknað með því að verulega hægi á hagvexti á milli áranna 2022 og 2023. Reiknað sé með því að hagvöxturinn hér á landi verði rétt um 2% á næsta ári eftir um 6% áætlaðan hagvöxt í ár. Í viðskiptalöndum okkar er á sama tíma búist við því að hagvöxtur fari úr ríflega 3% í tæplega 1%. Meiri hagvöxtur hér en í viðskiptalöndunum sýni að þrátt fyrir að við séum háð erlendri efnahagsþróun getum við skarað fram úr ef rétt er á málum haldið. 

Aðgerðir sem styðja við framboðshlið hagkerfisins mikilvægar

Þá segir Ingólfur í greininni að stjórnvöld hafi á síðustu árum stigið mikilvæg skref til að styrkja vaxtargetu hagkerfisins og byggt undir nýjar stoðir með tilheyrandi uppskeru í formi hagvaxtar til hagsbóta fyrir heimilin í landinu. Miklu skipti að haldið sé áfram á þessari braut. Hann segir að í þessu felist fyrst og fremst að tryggja að mannauður, innviðir, nýsköpun og aðrir þættir sem hagkerfið þarf til vaxtar mæti þörfum atvinnulífsins. Með aðgerðum sem styðji þannig við framboðshlið hagkerfisins og efli samkeppnishæfni fyrirtækjanna í landinu megi renna styrkari stoðum undir framleiðni, stöðugleika og hagvöxt litið til framtíðar. 

Mikið áhyggjuefni að dregið verði úr innviðafjárfestingum 

Einnig kemur fram í grein Ingólfs að á næsta ári muni draga úr innviðafjárfestingum hins opinbera, þ.e. bæði ríkis og sveitarfélaga. Það sé mikið áhyggjuefni enda sé fjárfesting í dag hagvöxtur á morgun. Hann segir að fjárfesting í innviðum, s.s. í höfnum, flugvöllum, vegum og brúm, auki samkeppnishæfni og afkastagetu þjóðarbúsins sem skili sér í aukinni verðmætasköpun og auknum gjaldeyristekjum. Fjárfesting á þessu sviði spari útgjöld, fjölgi störfum og dragi úr tímasóun vegna tafa fyrir heimili og fyrirtæki. Aukin framleiðni skili sér síðan í lægri vöxtum og minna atvinnuleysi en ekki síst sé fjárfesting í innviðum til þess fallin að auka öryggi, draga úr slysum og bjarga mannslífum. Þessu til viðbótar skapi fjárfesting mörg störf, bæði á framkvæmdatíma og að honum loknum. 

Fjármögnunarkjör versnað hratt með hækkandi vaxtaálagi samhliða óvissu

Jafnframt segir Ingólfur í greininni að uppbygging nýrra íbúða og atvinnuvegafjárfesting séu að sama skapi nauðsynlegar og leggi grunn að frekari lífsgæðum. Fjárfestingar verði ekki án fjármagns en fjármagn hafi orðið dýrara á alþjóðlegum mörkuðum með hærri vöxtum og hækkandi vaxtaálagi samhliða óvissu í heimshagkerfinu. Ef illa fari og ekki sé rétt á málum haldið sé líklegt að fjárfesting einkageirans dragist saman á næstunni. Hann segir að þetta sé áhyggjuefni en fjárfesting sé grundvöllur framleiðnivaxtar og einn af hornsteinum framtíðarhagvaxtar. Fjármögnunarkjör hafi versnað hratt á alþjóðlegum mörkuðum og hafi það áhrif hér á landi. Ingólfur segir að því til viðbótar séu vísbendingar um að aðgengi að innlendu lánsfé fari minnkandi og að í nýjasta hefti Peningamála, riti Seðlabankans um stöðu og horfur í efnahagsmálum, komi fram að vaxtahækkanir frá síðasta ári hafi þrengt að lausafjárstöðu viðskiptabankanna og aðstæður þeirra til fjármögnunar á alþjóðamörkuðum hafi verið krefjandi. Hann segir að Seðlabankinn bendi réttilega á að aðgengi fyrirtækja að lánsfé á komandi mánuðum verði líklega að hluta háð því að takist að liðka um fjármögnun bankanna.  

Hér er hægt að lesa greinina í heild sinni.

ViðskiptaMogginn, 30. nóvember 2022.

VidskiptaMogginn-30-11-2022