Fréttasafn



29. sep. 2016 Iðnaður og hugverk

Lífhagkerfið og NordBio til umræðu á alþjóðlegri ráðstefnu

Alþjóðleg ráðstefna um lífhagkerfið og niðurstöður NordBio verkefna verður haldin í Silfurbergi í Hörpu dagana 5.-6. október.

Lífhagkerfi er hagkerfi sem byggir á nýtingu lifandi auðlinda á landi og í sjó þar sem leitast er við að hámarka ávinning án þess að ganga á auðlindirnar. Nú er að ljúka þriggja ára áætlun um norræna lífhagkerfið (NordBio) sem hófst árið 2014 þegar Ísland gegndi formennsku í Norrænu ráðherranefndinni. Í tilefni af því er boðað til ráðstefnunnar þar sem gott tækifæri gefst til að fræðast um lífhagkerfið og NordBio verkefnin, heyra um alþjóðlega strauma og stefnur á þessu sviði og leggja á ráðin um hvernig framtíðin eigi að líta út.

Yfirskrift ráðstefnunnar sem fer fram á ensku er „Minding the Future – Bioeconomy in a changing Nordic reality“. Ráðstefnan skiptist í gagnvirka fyrirlestra og málstofur. Fyrirlesarar eru fjölmargir, þeirra á meðal eru Ari Kristinn Jónsson, rektor HR, Brynhildur Davíðsdóttir, prófessor í umhverfis- og auðlindafræðum við HÍ, Christine Lang, formaður þýska lífhagkerfisráðsins, Lene Lange, prófessor í lífefnafræði við Tækniháskólann í Kaupmannahöfn og Bryan Alexander, framtíðarfræðingur og rithöfundur. Ráðstefnustjórar eru Þóra Arnórsdóttir og Stefán Gíslason.

Nánar um ráðstefnuna á vef Nordbio .