Fréttasafn



8. apr. 2019 Almennar fréttir

Lífskjarasamningurinn mikilvægur fyrir samfélagið allt

Sigurður Hannesson, framkvæmdastjóri SI, ræddi um nýjan lífskjarasamning ásamt Þórunni Sveinbjarnardóttur, formanni BHM, í útvarpsþættinum Sprengisandi í umsjón Kristjáns Kristjánssonar síðastliðinn sunnudag. Sigurður sagði að þetta hafi verið hörð lota, verkalýðshreyfingin hafi staðið föst á sínu en niðurstaðan hafi verið sú að samningar náðust. „Lífskjarasamningurinn er afar mikilvægur, ekki bara fyrir þá sem sátu við samningaborðið heldur fyrir samfélagið allt. Hækkun launa, stytting vinnutíma, lækkun skatta og sterkari undirstöður fyrir stöðugleika sem gæti verið undirstaða fyrir lækkun vaxta.“ Þá sagði hann mikilvægt að samningurinn væri til lengri tíma eða til fjögurra ára.

Einnig sagði Sigurður að lífskjör snúist um margt fleira en laun og það endurspeglist í þessum nýja samningi. „Það hlýtur að vera markmið að Íslandi sé eftirsótt fyrir búsetu og atvinnurekstur. Þetta er tilraun til að ná saman á breiðum grunni um þessi mál. Vonandi gengur það eftir.“

Á vef Bylgjunnar er hægt að hlusta á viðtalið í heild sinni.