Fréttasafn



24. ágú. 2023 Almennar fréttir Mannvirki Samtök arkitektastofa

Liska hlýtur alþjóðleg verðlaun fyrir lýsingu Hallgrímskirkju

Liska, aðildarfyrirtæki SI, vann til tvennra verðlauna alþjóðlegu ljóstæknisamtakanna, Illumination Engineering Society, IES. Liska hlaut verðlaun fyrir lýsingahönnun sína við Hallgrímskirkju, annars vegar í flokki innanhúslýsingar og hins vegar utanhúslýsingar. Fulltrúar Lisku tóku á móti verðlaununum í Chicago og  þykja verðlaunin ein virtasta viðurkenning í lýsingargeiranum á heimsvísu. 

Á vef Lisku segir að dómnefnd skipuð 20 fagaðilum, svo sem lýsingarhönnuðum og framleiðendum, meti verkefni í fjórum flokkum en í ár voru 623 innsend verkefni víðs vegar að úr heiminum. Af þessum 623 verkefnum voru 211 verkefni sem fengu viðurkenningu (e. award of merit), 10 verkefni sem fengu verðlaun fyrir framúrskarandi árangur (e. award of excellence) og eitt verkefni sem fékk æðstu verðlaun (e. award of destinction). 

Utanhúslýsing Hallgrímskirkju hlaut Award of Excellence for Outdoor Lighting design og innanhúslýsing Hallgrímskirkju var hlutskörpust í Award of Distinction for Interior Lighting design sem eru æðstu verðlaunin sem veitt eru. 

Á vef Lisku er hægt að nálgast frekari upplýsingar um verðlaunin.

Á myndinni eru lýsingarhönnuðir Lisku með verðlaunagripina, talið frá vinstri, Kateřina Blahutová, Guðjón L. Sigurðsson og Örn Erlendsson. Ljósmynd: IES.