Lítið sem ekkert eftirlit með ólöglegum iðnaði
Rætt er við Björgu Ástu Þórðardóttur yfirlögfræðing í Morgunblaðinu sem segir að bæta þurfi verulega eftirlit með svartri vinnu á Íslandi. „Það er núna hjá lögreglu en því hefur nánast ekkert verið sinnt.“ Þá segir í fréttinni að það sé mat Samtaka iðnaðarins að saðan sé sú að eftirlit með því að starfað sé á grundvelli tilskilinna leyfa, þ.e. sveins- og meistarabréfa, í iðngreinum á Íslandi sé lítið sem ekkert. Það sé sambærileg staða í öllum iðngreinum. Einstaklingar geti stofnað fyrirtæki og veitt þjónustu án þess að hafa réttindi eða leyfi til þess.
Í umfjöllun Morgunblaðsins í gær kom fram að ólöglegum snyrtistofum hafi t.a.m. fjölgað ár frá ári.
Snýst um öryggi, gæði og neytendavernd
Í frétt Morgunblaðsins segir að freistnivandi geti verið dýrkeyptur þegar freistast er til að kaupa svarta vinnu en það geti haft alvarlegar afleiðingar fyrir neytendur að eiga viðskipti við fólk sem hefur ekki tilskilin réttindi til þess með tilheyrandi tjóni. Björg vísar til laga um svokallaðar handiðngreinar. „Þetta snýst um öryggi, gæði og neytendavernd. Þannig að einstaklingar og fyrirtæki sem þau skipta við megi treysta því að þeir sem veiti þjónustu séu með réttindi til þess. En það er bara ekki staðan í dag í mörgum tilvikum. Til dæmis í húsasmíði, rafvirkjun, málaraiðn, húsgagnasmíði, snyrtifræði, hársnyrtiiðn og svo framvegis.“
Hvergi til opinber skrá yfir þá sem hafa sveins- og meistarapróf
Jafnframt segir í frétt Morgunblaðsins að vandamálið sé mun víðtækara en áður var talið. „Það sem er verra er að stjórnvöld hafa ekki gefið neytendum þau tæki sem þarf til að kanna hvort einstaklingar séu með tilskilin réttindi. Það er hvergi að finna opinbera skráningu yfir þá sem hafa sveins- og meistarapróf. Neytendur eiga mjög erfitt með að átta sig á því hvort veitandi þjónustu er til dæmis í raun og veru húsasmiður eða snyrtifræðingur.“ Þá segir Björg í Morgunblaðinu að ljóst sé að fylgni sé til staðar milli fyrrgreindra lögbrota og svarta hagkerfisins sem blómstri. „Þar sem einstaklingar án réttinda greiða ekki skatta til samfélagsins. Fjölmörg fyrirtæki á Íslandi starfa ekki í samræmi við lög.“
Morgunblaðið, 29. ágúst 2023.