Fréttasafn



3. nóv. 2016 Almennar fréttir

Ljósmyndarafélag Íslands með sýningu í tilefni 90 ára afmælis

Ljósmyndarafélag Íslands er 90 ára en félagið var stofnað árið 1926. Í tilefni afmælisins verður opnuð ljósmyndasýning í Kringlunni á morgun 4. nóvember kl. 13.00. Sýningin er á 1. hæð Kringlunnar til móts við ÁTVR. Formaður félagsins, Lárus Karl Ingason, ætlar að opna sýninguna.

Á vef Ljósmyndarafélags Íslands er hægt að lesa um sögu félagsins en félagið var stofnað af 18 ljósmyndurum sem störfuðu flestir í Reykjavík á þeim tíma. Ljósmyndun er löggilt iðngrein og starfsvettvangur ljósmyndara er fjölbreyttur. Ljósmyndarafélag Íslands er fagfélag greinarinnar og samstarfsvettvangur allra fagmenntaðra ljósmyndara á landinu. Markmið félagsins er að efla samvinnu félagsmanna, stuðla að símenntun í greininni og tryggja árangur þeirra á markaði. Á vef félagsins kemur fram að Ljósmyndarafélagið telur að bæði menntun og lögformlegar skyldur til að starfa í greininni séu jafn mikilvægar nú eins og árið 1926 þegar félagið var stofnað. Það tryggi neytendum að í faginu séu lærðir fagmenn með réttindi til að taka að sér verkefni sem krefjast gæðavinnu á öllum sviðum.