Local Food – Matarhátíð á Norðurlandi
Local Food matarmenningarhátíð á Norðurlandi lauk í gær, en hátíðin stóð yfir 15.-20. október. Hápunktur hátíðarinnar var Local Food sýningin en hún er haldin annaðhvert ár og er einn stærsti viðburður sinnar tegundar á landinu. Fjöldi manns lagði leið sína á sýninguna til að fylgjast með spennandi og fjölbreyttri dagskrá og gæða sér á gómsætum mat. Samtök iðnaðarins eru meðal styrktaraðila hátíðarinnar en aðalmarkmiðið með henni er að kynna norðlenskan mat og matarmenningu.
Hátíðin tók við af sýningunni Matur-Inn, en hana sóttu 13-15 þúsund gestir þegar hún var haldin síðast árið 2013. Breyttar áherslur voru á sýningunni í ár en til viðbótar við kynningu matvælaframleiðenda mátti sjá ýmsar vörur sem tengdust borðhaldi og matreiðslu og gátu gestir fylgst með æsispennandi kokkakeppni þar sem landsliðsmaðurinn Garðar sigraði Steven Edwards vinningshafa MasterChef – The Professionals 2013.